Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fjöldi Íslendinga ferðast til Svíþjóðar

Mynd: RÚV Bogi Ágústsson / Bogi Ágústsson
Miðað við hörmungarástandið sem ríkir í Svíþjóð kemur á óvart hversu margir Íslendingar ferðast þangað þessa dagana. Þetta sagði Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túrista.is, sem er búsettur í Svíþjóð, í viðtali í Morgunvaktinni á RÁS 1 í morgun. Viðtalið má hlusta á í spilaranum hér að ofan.

„Það er greinilegt að það eru margir sem hafa ekki látið þetta fæla sig frá. En fólk hefur sennilega hagað sér öðruvísi í Stokkhólmsferðinni í ár en undanfarin ár,“ segir Kristján. Hann segir ferðirnar sennilega skýrast af því hversu margir Íslendingar eiga vini og ættingja sem eru búsettir í Svíþjóð.

Höfuðborgir Norðurlandanna laða til sín Íslendinga

Kristján segir að um það bil helmingur farþega sem flugu frá Íslandi í júní hafi verið Íslendingar. Samkvæmt tölum frá Icelandair var Kaupmannahöfn vinsælasti áfangastaður Íslendinga, Osló var næstvinsælust og Stokkhólmur þar á eftir. 

„Þessar þrjár höfuðborgir Skandinavíu hafa laðað til sín flesta íslenska farþega. Í fjórða sætinu er svo Amsterdam og svo Frankfurt í Þýskalandi. Þetta eru þær fimm borgir sem flestir hafa flogið til,“ segir Kristján. 

Þá hafi verið farnar vikulegar ferðir til Tenerife og Alicante. Það séu einna helst Íslendingar sem eiga fasteignir á þeim svæðum sem ferðist þangað.  

Lítil sætanýting

Í dag eru áætluð fjögur flug frá Keflavík til Kaupmannahafnar. Kristján segir að það veki athygli að fjöldi fluga til Kaupmannahafnar sé næstum sá sami og hefur tíðkast á sumrin síðustu ár. Nú sé sætanýtingin hins vegar mun minni, gjarnan ekki nema 50-60 prósent.