Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fimm róleg en frekar flippuð fyrir helgina

Mynd með færslu
 Mynd: King Gizzard & The Lizard Wizard

Fimm róleg en frekar flippuð fyrir helgina

31.07.2020 - 12:57

Höfundar

Verslunarmannahelgin fram undan er kannski með örlítið öðru sniði en við erum vön en tónlistin er klár og hún er hugguleg þrátt fyrir að það sé stutt í flippið. Á matseðlinum má finna indí-útgáfu af popp prinsessunni Taylor Swift, lágstemmt listapopp frá söngvara The National, baritón englarödd í ástarsorg, gallsúrt flipprokk og austurríska en alþjóðavædda sækadelíu.

Taylor Swift ft Bon Iver - Exile

Nú er vika frá því að folklore nýja plata Taylor Swift var gefin út öllum nema henni og nokkrum öðrum að óvörum. Platan tók tónlistarpressuna á ippon og er með 89 á Metacritic. Folklore er sett af gagnrýnendum í indie folk eða alternative hilluna en þar hefur Taylor ekki sést áður en hún virðist kunna vel við sig og er svo sem í ágætis félagsskap með þeim Bon Iver og Aron Dessner úr The National sem unnu með henni að gerð Folklore.


Matt Berninger - Distant Axis

Serpentine Prison er nafnið á fyrstu sólóplötu Matt Berninger úr The National en liðsmenn sveitarinnar virðast vera að dreifa sér í ýmis verkefni þessa dagana. Platan kemur út í haust hjá nýju útgáfufyrirtæki listaspírunnar Beringers og aldraða flippkisans Booker T. Jones: Book Records.


Angel Olsen - Whole New Mess

Á nýju plötunni sinni Whole New Mess er Angel Olsen aftur ein á ferð í ástarsorg en platan var tekin upp haustið 2018 og inniheldur tvö ný lög. Síðasta plata þar sem fröken Olsen (sem er hvorki skyld samnefndum bræðrum né systrum) var ekki með hljómsveit með sér var platan Half Way Home sem kom út árið 2012.


King Gizzard & The Lizard Wizard - Honey

Þrátt fyrir að flestir myndu nú ekki giska á að band sem inniheldur sjö liðsmenn, eitt vélmenni, þrjá fasta samstarfsmenn og nefnir sig King Gizzard & The Lizard Wizard væri mjög vinnusamt band, er það nú samt raunin. Hljómsveitin súra hefur gefið út yfir 20 plötur síðan árið 2012 þannig að það er nánast full vinna að fylgjast með afköstunum, en það er ágætt að hlusta bara á Honey um helgina og sjá svo til.


Takeshi's Cashew - Akihi

Áfram með sýruna, það er nú einu sinni verslunarmannahelgi, og við förum næst til fæðingarborgar vínarbrauðsins, Vín, í sækadelíska og seðjand Mið-Austurlandasúpu. Sveitin heitir Takeshi's Cashew og er að taka sín fyrstu skref sem sverja sig í ætt við hollensk-tyrknesku sprelligosana í Altun Gun og tæfönk texas-tríóið Khruangbin.


Fimman á Spotify