Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ekki hægt að halda tveggja metra fjarlægð í strætó

31.07.2020 - 11:48
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Það er ómögulegt að tryggja tveggja metra bil milli farþega í öllum ferðum strætó, að sögn Jóhannesar Svavars Rúnarssonar, framkvæmdastjóra Strætó. Strætó bs hefur tekið ákvörðun um að skylda farþega til að bera grímur í strætisvögnum. 

Greint var frá því á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í gær að þar sem ekki væri hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð milli fólks þyrfti það að bera andlitsgrímur. Þetta ætti til dæmis við í almenningssamgöngum. Í framhaldi greindu svo almannavarnir frá því að strætó yrði undanþeginn reglunni og að þar ætti frekar að halda tveimur metrum milli farþega. 

Þyrfti annars að vísa fólki frá

Aðspurður segir Jóhannes ákvörðunina byggja á því sem kom fram á fundi ríkisstjórnarinnar í gær. „Við vorum búin að undirbúa allt í samræmi við það. Við ákváðum að halda þessu til streitu,“ segir hann.  

„Það er ekki hægt að halda tveggja metra reglunni í strætó, það sýndi sig alveg í vetur, það var mjög erfitt. Það þyrfti bara að vísa fólki frá og það er mjög erfitt fyrir vagnstjóra að vera í því hlutverki,“ segir Jóhannes.

„Við túlkuðum það þannig að við féllum undir það að vera almenningssamgöngur þar sem því er ekki við komið að halda tveggja metra reglunni.“ 

Í takt við reglur í nágrannaríkjum

Aðspurður segir Jóhannes að Strætó hafi ekki ráðfært sig við almannavarnir áður en ákvörðunin var tekin. „Víðast hvar í heiminum eru almenningssamgöngur með grímuskyldu og undanskilin tveggja metra reglunni. Þannig það var ekkert óeðlilegt þó við túlkuðum þetta þannig,“ segir hann. 

Hann segir að það verði á ábyrgð farþeganna sjálfra að þeir beri grímur og sinni smitvörnum. „Bílstjórarnir verða ekki settir í neitt lögregluhlutverk. Við höfðum bara til þess sem Víðir hefur sagt, við erum öll almannavarnir,“ segir Jóhannes.