„Ég var hættur að vera spenntur að mæta á æfingar“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég var hættur að vera spenntur að mæta á æfingar“

31.07.2020 - 15:39
FH vann Þór í Mjólkurbikarnum í Kaplakrika í gær, 3-1. Þegar um korter var eftir af leiknum kom Kristján Gauti Emilsson inn á af varamannabekknum og spilaði sínar fyrstu mínútur í fimm ár.

Kristján Gauti lék með FH á sínum yngri árum en fór ungur til enska stórliðsins Liverpool þar sem hann lék fyrir yngri lið félagsins frá 2009-2012. Hann gekk svo til liðs við NEC Nijmegen í Hollandi árið 2014 en árið 2016 lagði hann fótboltaskóna á hilluna, þá 23 ára. Kristján Gauti hafði þá spilað fjölmarga leiki fyrir yngri landslið Íslands og Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck höfðu meðal annars valið hann í leikmannahóp A-landsliðsins í janúar 2014.

En hvers vegna ákvað Kristján Gauti að hætta í fótbolta á sínum tíma?

„Ég var mikið meiddur, þrálát meiðsli trekk í trekk. Með því kom eitthvað áhugaleysi yfir mig. Ég var hættur að vera spenntur að mæta á æfingar og svoleiðis. Þannig ég þurfti að taka þessa erfiðu ákvörðun að leggja skóna á hilluna í smá tíma en ég sagði við mig að ef áhuginn kæmi aftur myndi ég vera tilbúinn að taka því,“ segir Kristján.

Hann hefur þó ekki setið auðum höndum síðustu ár. „Ég fór í kvikmyndaskólann og útskriftaðist þaðan fyrir tveimur árum. Annars var ég bara að vinna í ferðaþjónustubransanum, það var mjög gaman. En núna er gott að vera kominn aftur í boltann og fínt að taka sigur í dag,“ segir Kristján.

Er spennufall að koma inn eftir svona langan tíma?
„Rosalega gaman að fá þessar mínútur í dag og ég hugsaði bara því fyrr sem ég get komið því betra og ég þarf náttúrulega að komast í almennilegt leikform og það mun náttúrulega taka smá tíma,“ segir hann.

Er gleðin komin aftur?
„Algerlega.“

 

Tengdar fréttir

Íslenski fótboltinn

Tekur fram skóna með uppeldisfélaginu eftir 4 ára hlé