Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Dregur í land með að fresta kosningum

31.07.2020 - 09:06
epa08575571 US President Donald Trump speaks at a news conference at the White House in Washington, DC, USA, 30 July 30 2020.  EPA-EFE/YURI GRIPAS / POOL
 Mynd: EPA-EFE - ABACA
Donald Trump Bandaríkjaforseta virðist hafa snúist hugur um að réttast væri að fresta kosningunum sem boðaðar hafa verið 3. nóvember.Hugmyndin hefur mætt eindreginni andstöðu.

Hugmynd Trumps sem hann varpaði fram á Twitter í gær um að fresta kosningum hefur verið fálega tekið jafnt af pólitískum samherjum sem andstæðingum. Ekki var annað að heyra á fundi með fréttamönnum í Hvíta húsinu í gærkvöld en að honum hafi snúist hugur. Þar sagðist hann ekki vilja frest, en bætti því við að hann vildi ekki bíða í þrjá mánuði, þá komast að því að póstatkvæði hefðu ekki skilað sér og ekkert væri að marka úrslitin.

Forsetinn bætti því við að allir vissu að þannig ætti þetta eftir að fara. Klára fólkið vissi þetta, kannski ekki heimskingjarnir. Sumir vildu ekki ræða málið en vissu að svona ætti það eftir að enda.

Donald Trump hefur margoft rætt andstöðu sína við að boðið verði upp á póstkosningar í nóvember vegna COVID-19 farsóttarinnar. Hann sagði á Twitter í gær að það fyrirkomulag ætti eftir að bjóða upp á mestu kosningasvik og óáreiðanlegustu niðurstöður sögunnar, sem ættu eftir að verða Bandaríkjunum til skammar. Gagnrýnendur Trumps fara fram á að hann leggi fram sannanir þessum skoðunum til stuðnings.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV