
Vonar að hægt verði að hindra aðra bylgju faraldursins
Heilbrigðisráðherra sagði á blaðamannafundi í morgun að með þessu væri verið að taka „mjög ákveðið í handbremsuna.“ Yfirvöld þyrftu daga og mögulega vikur til að átta sig nákvæmlega á því hver staðan væri.
Tvær hópsýkingar eru nú á höfuðborgarsvæðinu og Akranesi. 39 eru í einangrun með virkt smit og í morgun lagðist fyrsti sjúklingurinn inn á Landspítalann. Tíu smituðust innanlands í gær en flestir þeirra voru í sóttkví.
Íslensk erfðagreining hefur hafið skimun aftur, bæði með slembiúrtaki en líka með því að kalla fólk inn í skimun.
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, starfandi sóttvarnalæknir, segir að þau hafi viljað ganga frekar langt í einu skrefi. „Þetta vonum við að verði nóg til að hindra að það fari af stað bylgja. Það er verið að kortleggja útbreiðsluna og þar er skimunarverkefnið hjá Decode lykilatriði og vonandi komumst við að niðurstöðu út frá þeim upplýsingum.“ Hún vonast til að þetta dugi og þannig verði komist hjá því að ganga þurfi enn þá lengra.