Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Vertar í Eyjum afturkalla umsóknir um vínsölu utandyra

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Allir þeir veitinga-og skemmtistaðir sem höfðu sótt um að fá að selja áfengi utandyra í Vestmannaeyjum hafa afturkallað umsókn sína. Sama á við um styrktartónleika sem til stóð halda í tilefni af verslunarmannahelginni. Skilyrði verða sett um lokun Herjólfsdals fyrir umferð fólks ef leyfi verður veitt fyrir brennunni á Fjósakletti annað kvöld.

Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs sem kom saman til aukafundar í dag eftir að kynntar höfðu verið hertar aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins.

Í bókun bæjarráðs er ítrekað mikilvægi persónubundinni sóttvarna og að „Vestmanneyingar hafa sýnt að þegar mest liggur við er samheldni og samstaða okkar sterkasta vopn.“

Þá kemur fram að allir þeir sem drógu umsókn sína til baka hafi sýnt samfélagslega ábyrgð í ljósi stöðunnar.  Þá er því hafnað að umsagnirnar frá þessum fyrirtækjum hafi verið afgreiddar umhugsunarlaust „eins og ýjað hefur verið að í einum fjölmiðli í Vestmannaeyjum.“

Fjölda bæjarhátíða sem áttu að fara fram um helgina hefur verið aflýst í ljósi stöðunnar sem og tónlistarhátíðinni Innipúkanum sem átti að halda í Gamla bíó. 

Engar upplýsingar hafi legið fyrir um ógnina eða hertar reglur sem nú blasi við vegna fjölgunar COVID-19 smita.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV