Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vara við stórum jarðskjálfta í Nýju Delhi

30.07.2020 - 16:48
epa05252583 A house damaged by an earthquake stands in ruins in Srinagar, the summer capital of Indian Kashmir, 10 April 2016. A 6.6 magnitude earthquake jolted Indian Kashmir in the afternoon forcing people out of their homes, however, there was no immediate report of loss of lives.  EPA/FAROOQ KHAN
 Mynd: EPA
Íbúar Nýju-Delhi, höfuðborgar Indlands, eru beðnir um að vera viðbúnir öflugum jarðskjálfta. Þetta kemur fram í opnuauglýsingu sem birt er í víðlesnustu dagblöðum landsins. Verði af skjálftanum kann líf hundraða þúsunda að vera í hættu.

Í auglýsingunni kemur fram hvað fólk á að gera og hvað ekki ef sá stóri ríður yfir. Frá því í apríl hafa átján skjálftar orðið á höfuðborgarsvæðinu, flestir litlir. Tveir hafa þó verið yfir fjórir að stærð, að sögn aðalráðherra Delhi. Þar af leiðandi telur hann vissast að borgarbúar, sem eru um tuttugu milljónir talsins, ættu að vera viðbúnir því að stór skjálfti sé yfirvofandi.

AFP fréttastofan hefur eftir vísindamanni við jarðvísindastofnun Indlands að skjálftavirkni hafi áður aukist á höfuðborgarsvæðinu og síðan dregið úr henni. Það sé hins vegar skynsamlegt hjá borgaryfirvöldum að vara íbúana við því að stór skjálfti kunni að vera yfirvofandi. Að hans sögn er líf hundraða þúsunda í hættu ef það gerist. Fjöldi húsa í borginni sé illa byggður og því ótraustur.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV