Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Útilegur í uppnámi vegna veðurs og hertra reglna

30.07.2020 - 18:44
Mynd með færslu
 Mynd: commons.wikimedia.org
Mörg tjaldsvæði hafa þurft að vísa fólki frá vegna hertra sóttvarnarreglna sem taka gildi á morgun. Starfsmaður Bása í Þórsmörk segir að tjaldsvæðið þar sé fullt alla verslunarmannahelgina. Von var á fleiri en hundrað gestum á tjaldsvæðið um helgina og því þurfti að tilkynna allmörgum ferðalöngum að þeir þyrftu að hverfa frá áformum sínum.

Einnig hefur verið talsvert um afbókanir á tjaldsvæðið um helgina, bæði vegna veðurs og hertra reglna. Gul viðvörun er í gildi í þremur landshlutum, þar á meðal á Suðurlandi. 

Vonskuveður í Skaftafelli

Tjaldsvæðið í Skaftafelli er vinsæll áfangangastaður og þar hefur verið afar mikið að gera í sumar. Spáð er aftakaveðri um helgina á Suðausturlandi. Á morgun er í gildi appelsínugul viðvörun í landshlutanum vegna hvassviðris.

Sigrún Sigurgeirsdóttir, starfsmaður Skaftafellsstofu, segir það lán í óláni að spáin sé slæm. Hún segir að af þeim sökum sé ekki útlit fyrir að aðsóknin verði mikil. Hins vegar hafa starfsmenn tjaldsvæðisins þegar hafist handa við að gera nauðsynlegar ráðstafanir vegna breyttra fjöldatakmarkana. 

Sigrún segir að ekki verði farið þá leið að skipta svæðinu í hundrað manna hólf, líkt og gert hefur verið á mörgum tjaldsvæðum landsins. Hún bætir við að björgunarsveitir skiptist á að dveljast á svæðinu. Flugbjörgunarsveitin verður á svæðinu um helgina og er í viðbragðsstöðu ef eitthvað skyldi koma upp á vegna hvassviðrisins. 

Mynd með færslu
Í Skaftafelli.

Vísir greindi frá því í dag að tjaldsvæði á Akureyri búast við að færri muni komast að en vilja vegna nýrra fjöldatakmarkana. Að sögn lögreglunnar á Norðurlandi eystra verður viðbúnaðurinn um helgina svipaður og áformað var áður en sóttvarnarreglur voru hertar.

Lögregluþjónn í umdæminu segir í samtali við fréttastofu segir að eftirlitsferðir verði farnar á tjaldstæði um helgina til þess að ganga úr skugga um að þar sé farið eftir sóttvarnarreglum. Hann tekur þó fram að fullt traust sé borið til starfsmanna tjaldsvæðanna sem sjá um talningu gesta.