Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Úr 100 í 20 í 50 í 200 í 500 og svo aftur í 100

Mynd með færslu
 Mynd: BSRB - ruv
Samkomutakmarkanirnar sem tilkynnt var um á fundi ríkisstjórnarinnar, Almannavarna og Embættis landlæknis í morgun eru þær mestu hér á landi vegna COVID-19 faraldursins síðan takmarkanir voru rýmkaðar úr 50 manns í 200 þann 25. maí. Þetta er í sjötta sinn síðan 16. mars sem takmarkanir eru settar á þann fjölda fólks sem má koma saman.

Ákvörðun um samkomutakmarkanir vegna farsótta á sér stoð í 12. grein sóttvarnalaga þar sem segir að ráðherra ákveði, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis, hvort grípa skuli til ráðstafana sé fyrirséð að farsótt sé yfirvofandi.

Fyrsta kórónuveirusmitið hér á landi var staðfest 28. febrúar og neyðarstigi almannavarna var lýst yfir nokkrum dögum síðar, 6. mars. 

100 manna hámark 16. mars

Fyrstu takmarkanir á fjölda þeirra sem máttu koma saman voru settar 16. mars. Í þeim fólst að ekki mættu fleiri en 100 koma saman og að tryggja yrði tveggja metra nánd á milli fólks á öllum viðburðum. Um var að ræða tímabundna virkjun á heimildum sóttvarnalaga til að hægja á útbreiðslu COVID-19, og  fyrirkomulagið átti að gilda í fjórar vikur, til 13. apríl. 

20 manna hámark 22. mars

Svo varð ekki, því tæpri viku síðar, 22. mars, var tilkynnt um að heilbrigðisráðherra hefði ákveðið, í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis, að takmarka samkomur enn frekar en áður vegna hraðrar útbreiðslu faraldursins. Þá voru viðburðir, þar sem fólk kom saman, takmarkaðir við 20 manns í stað 100. Á vinnustöðum og í almenningssamgöngum átti að tryggja að ekki væru fleiri en 20 í sama rými og starfsemi og þjónustu eins og hárgreiðslu- og snyrtistofum, sem krefst mikillar nálægðar á milli fólks, var lokað. Það sama gilti um skemmtistaði, sundlaugar, líkamsræktarstöðvar og ýmsa samkomustaði.

Sama dag féllst heilbrigðisráðherra á að öllum valkvæðum skurðaðgerðum, ýmsum greiningum og rannsóknum yrði frestað og heilbrigðisþjónustan endurskipulögð þannig að unnt væri að sinna COVID-19 sjúklingum. Þá var heilbrigðisstarfsfólk hvatt til að skrá sig í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar.

Í byrjun apríl var síðan tilkynnt um að smitrakningarappið Rakning C-19 væri tilbúið til notkunar og biðlað til almennings um að hlaða því í síma sína.

50 manna hámark 4. maí

50 manna fjöldatakmarkanir tóku gildi 4. maí og þá mátti opna tannlækna- og hárgreiðslustofur aftur. Þá voru íþróttaæfingar og keppnir leyfar á ný, en án áhorfenda. 

18. maí féllst heilbrigðisráðherra á tillögu sóttvarnalæknis um að heimila opnun sundlauga og var leyfilegur gestafjöldi þá helmingur af hámarksfjölda samkvæmt starfsleyfi

200 manna hámark 25. maí

25. maí var allt að 200 manns heimilt að koma saman. Þá voru líkamsræktarstöðvar opnaðar með helmingsfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi og opnunartími bara, vínveitingastaða og skemmtistaða lengdur til klukkan 23. Daginn eftir, 26. maí, ákvað ríkislögreglustjóri, í samráði við sóttvarnalækni, að lækka almannavarnarstig frá neyðarstigi niður á hættustig.

Það stig er enn í gildi.

15. júní var fjöldinn síðan aukinn í 500 og átti sú takmörkun að gilda til 31. ágúst þegar rýmka átti fjöldann í 1.000. Sama dag voru hömlur á komur farþega hingað til lands rýmkaðar og skimun hófst við landamærin.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir