Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Undrast að fólk hafi ekki verið hvatt til að vera heima

30.07.2020 - 17:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hjalti Haraldsson - RÚV
Tónleikum helgarinnar á Komdu Austur! hefur verið aflýst en tónleikar kvöldsins standa. Hóteleigandi á Egilsstöðum undrast að fólk hafi ekki verið hvatt til að vera heima eða hætta við ferðalög. Ekki sé mögulegt að veita öllum þjónustu eftir að fjöldatakmarkanir verði hertar.

Tónleikum Emmsjé Gauta, Ljótu hálfvitanna, Óskars og Eyþórs Inga sem átti að halda í Valaskjálf á Egilsstöðum um helgina hefur verið aflýst vegna hertra samkomureglna. Dúndurfréttir munu hins vegar stíga á svið í kvöld eins og plön gerðu ráð fyrir.

Borgar sig ekki að halda tónleika

Þráinn Lárusson, eigandi Hótels Valaskjálfar, telur ekki óábyrgt að halda tónleika kvöldsins. Þau hafi farið vel yfir stöðuna í morgun. Salurinn taki 420 manns í mat svo það sé hægt að halda tónleika fyrir 200 manns og virða tveggja metra regluna. Hljómsveitin sé þegar mætt til Egilsstaða en það gefi hins vegar auga leið að það borgi sig ekki fyrir hljómsveitir að ferðast til Egilsstaða fyrir hundrað manna tónleika.  

Geta ekki sinnt öllum ferðalöngum

„Það er ekkert mál að aflýsa og fresta tónleikum en ég veit ekki hvernig ferðaþjónustuaðilar eiga að þjónusta allt þetta fólk. Á Egilsstöðum er 22° hiti og bærinn er fullur af fólki,“ segir Þráinn. Hann undrast að hvergi í umræðunni hafi fólk verið hvatt til þess að fresta þeim ferðalögum sem það hefur planað eða bent á að vera heima næstu tvær vikurnar. 

Nú þegar hafi hann þurft að vísa 60-70 manns frá á hverju kvöldi á veitingastaðnum Glóð og það hljóti að liggja í hlutarins eðli að það sé ekki hægt að veita öllu því fólki sem sé á ferðinni þjónustu þegar tveggja metra reglan tekur gildi: „Menn hljóta að verða að hvetja fólk til að vera heima og vera ekki að ferðast,“ segir Þráinn.