Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þriggja daga Potterhátíð á Akureyri

30.07.2020 - 09:54
Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason / RÚV
Þó ótrúlegt megi virðast verður ein þekktasta sögupersóna síðari tíma, galdrastrákurinn Harry Potter, fertugur á föstudaginn. Tímamótunum verður fagnað rækilega á Amtsbókasafninu á Akureyri með þriggja daga Potterhátíð.

Mest seldi bókaflokkur sögunnar

Rúmlega tuttugu ár eru síðan fyrsta bókin um galdrastrákinn Harry Potter kom út hjá Bloomsbury útgáfunni í London. Bækurnar hafa selst í yfir 500 milljónum eintaka og er bókaflokkurinn sá mest seldi í sögunni. Fyrsta bókin um Potter kom út árið 1997 en ekki hafa allir lesendur áttað sig á að saga hans hófst nokkru fyrr. Þriggja daga afmælisveisla hófst á Amtsbókasafninu í gær þar sem boðið var upp á fjölbreytta dagskrá. Hrönn Björgvinsdóttir ungmennabókavörður á Amtsbókasafninu eru skipuleggjandi hátíðarinnar. 

„Þarf að tjalda öllu til“

„Við ætlum að vera með þriggja daga hátíðarhöld. Það sem er svona hápunkturinn hjá okkur flóttaherbergi í kjallaranum hjá okkur. Þetta er sem sagt þannig að þeir sem koma hérna inn þurfa að leysa þrautir til þess að komast aftur út úr herberginu,“ segir Hrönn.

Það dugar ekkert minna en þriggja daga afmælisveisla fyrir þennan mikla meistara?

„Nei það er alveg rétt. Þetta er nú reyndar tvíþætt. Annars vegar að þetta er stórafmæli, það þarf að tjalda öllu til. En svo erum við nú líka svona að hafa smá varann á okkur út af Covid.“