Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þriðja hvert barn mælist með blýeitrun

30.07.2020 - 09:33
epa08569606 Children play in the fountain on the Rose Kennedy Greenway to keep cool as temperatures rose to 95F (35C) in Boston, Massachusetts, USA, 27 July 2020.  EPA-EFE/CJ GUNTHER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Eitt af hverjum þremur börnum mælist með blý í hættulegu magni blóði sínu, sem líklegt er til að valda verulegum, langtíma heilsufarsskaða.

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem Unicef birti í dag þá hafa þar af  um 800 milljónir barna og ungmenna undir 19 ára aldri yfir 5 míkrógrömm (5μg/dl) af blýi í hverjum desílítra af blóði.

Guardian fjallar um málið og segir að samkvæmt tölfræði Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO) teljist blý ekki öruggt í neinu magni og jafnvel í mjög litlu magni flokkist það sem hættulegt eiturefni. Þegar magnið er komið yfir fimm míkrógrömm kallar það hins vegar á aðgerðir samkvæmt bandarísku forvarnarstofnuninni US Centers for Disease Control

Rannsóknin var unnin af bandarísku rannsóknarstofnuninni Institute for Health Metrics and Evaluation og sýnir hún að þó blý sé ekki lengur notað í bensín, málningu eða vatnsrör stafi börnum engu að síður enn hætta af.

Þetta eru átakanlegar tölur,“ segir Nicholas Rees, sérfræðingur hjá Unicef og einn höfunda skýrsluna. „Við höfum lengi vitað hversu eitrað blý er, en við vissum ekki hversu algeng notkun þess er og hversu mörg börn það hefur áhrif á.“ Áhrif blýeitrunar gætir mest á börn í þróunarríkjum.

Blý er öflugt taugaeitur og í miklu magni getur það valdið dauða. Minni skammtar geta svo valdið llt frá vægum einkennum á borð við verki, uppköst og flog yfir í að hægja á þroska barna, valda andlegum erfiðleikum og skapsveiflum. Þá getur blýeitrun í litlu magni leitt til fæðingu fyrirbura.

Fimm míkrógrömm af blýi geta hins vegar valda skerðingu á vitsmunum, aukinni ofbeldishneigð og langtíma heilsufarsáhrifum á borð við hjarta- og æðasjúkdóma að sögn vísindamannanna.

Börn eru einkar viðkvæm fyrir blýeitrun vegna skaðans sem hún veldur á þroska heila og taugakerfi. Eitrið byggist upp í líkamanum yfir tíma og skaðans, sem það getur til að mynda valdið á líffærum á borð við nýru, hjarta og lungu, verður ekki vart strax.

Richard Fuller, hjá Pure Earth samtökunum sem unnu með Unicef að gerð skýrslunnar, segir fólk í dag minna meðvitað um skaðann sem blý veldur en áður.

„Við stóðum okkur frábærlega við að fjarlægja blý úr bensíni, en notkun blýs hefur haldist stöðug eftir að hafa minnkað á áttunda og níunda áratugnum,“ segir Fuller.