Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

„Þannig staða að það verður að bregðast hratt við“

Mynd: RÚV / RÚV
„Þessar tillögur eru algjörlega eins og búast má við miðað við þá stöðu sem er uppi ,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að loknum upplýsingafundi ríkisstjórnarinnar, Almannavarna og Embættis landlæknis í morgun þar sem hertar takmarkanir vegna COVID-19 faraldursins voru kynntar.

„Við erum að sjá þessa miklu og hröðu fjölgun smita hér innanlands, þá hefur það algerlega legið ljóst fyrir að af okkar hálfu að þá yrði gripið inn í með afgerandi hætti,“ sagði Katrín. „Þetta er auðvitað þannig staða að það verður að bregðast mjög hratt við.“

Katrín sagði að koma þyrfti í ljós hvort frekari aðgerða ríkisstjórarinnar væri þörf. „ Við eigum auðvitað eftir að sjá það. Hér er verið að leggja til aðgerðir í tvær vikur meðan við erum að fá yfirsýn yfir þessa stöðu og ná tökum á aðstæðum sem ég held að sé númer eitt, tvö og þrjú núna. Hér erum við að nýta það sem best reyndist á sínum tíma, við erum í rauninni að leita i þá verkfærakistu sem við þekkjum og kunnum að nota og núna, eins og áður , reiðum við okkur á það að almenningur taki fullan þátt í þessum aðgerðum. Að allir leggi sitt af mörkum til að þetta megi takast og að við náum aftur tökum á faraldrinum.“

 

Ótímabært að ræða uppsagnir

Spurð hvort hún óttaðist frekari uppsagnir á vinnumarkaði í kjölfar þessara aðgerða svaraði Katrín að það væri ótímabært að ræða það. „Hér er ekki verið að ráðast í umfangsmiklar lokanir eins og við sáum í fyrri aðgerðum heldur erum við að horfa til þess að við lögum okkur að því að vera með auknar sóttvarnaráðstafanir í öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur.“

Katrín sagðist gera ráð fyrir að aðgerðirnar væru fullnægjandi, þar til annað kæmi í ljós. „Það er bara staðan núna, eins og hún hefur verið í gegnum allan faraldurinn, að við þurfum að vera snögg að bregðast við og læra af því sem kemur upp hverju sinni.“

Höfum verið varfærnari en margar aðrar þjóðir

Katrín sagðist telja að ekki væri hægt að tala um að mistök hefðu valdið því að faraldurinn færðist aftur í aukana. Við erum stödd í heimsfaraldri sem við vitum ekki hvernig hegðar sér fyrirfram. Það eru allar þjóðir að ganga í gegnum þetta sama lærdómsferli. Ég sagði í upphafi, þegar við afléttum takmörkunum, að við værum mjög meðvituð um að það gæti þurft að grípa inn í með afgerandi hætti ef þetta myndi blossa upp aftur.“

Forsætisráðherra sagðist telja að farið hefði verið fram með varfærnum hætti við opnun landamæranna. „Varfærnari hætti en margar aðrar þjóðir, en það liggur alveg fyrir að þar þarf að herða á eins og annars staðar.“