Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Takmarka heimsóknir til eldri borgara

30.07.2020 - 20:03
Mynd með færslu
Grund við Hringbraut. Mynd: RÚV
Reykjavíkurborg hefur ákveðið að takmarka fjölda gesta til íbúa á hjúkrunarheimilum, í þjónustuíbúðum fyrir eldri borgara, íbúakjörnum og sambýlum fyrir fatlað fólk. Þetta er gert til þess að vernda viðkvæma hópa gegn kórónuveirusmiti.

Neyðarstjórn Reykjavíkurborgar fundaði í dag eftir að fyrir lá að sóttvarnaraðgerðir vegna COVID-19 yrðu hertar til muna. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að velferðarsvið muni ekki loka starfseiningum eða skerða þjónustu að svo búnu, til að mynda í félagsstarfi aldraðra og í mötuneytum. 

Í tilkyningunni segir að starfsemi safna verði að mestu leyti óbreytt þótt gætt verði að fjöldatakmörkunum og tveggja metra reglunni. Þá verða sundlaugar áfram opnar næstu tvær vikur. Gætt verður að því að ekki verði fleiri en hundrað sundlaugargestir í sama rými og merkingar um fjöldatakmarkanir verða settar upp við potta og gufur.