Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Svona á að nota grímur

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Margir ruku út í búð strax eftir blaðamannafundinn í dag til að kaupa sér grímu. Sums staðar þurfti að kalla út auka mannskap til að afgreiða grímurnar. Sérfræðingur hjá sóttvarnalækni segir þó að tveggja metra reglan sé aðalatriðið. Grímur eigi bara að nota þar sem ekki sé unnt að halda tveggja metra fjarlægð. Þegar gríman er orðin rök verði að henda henni og fá sér nýja.

Frá hádegi á morgun er fólki skylt að nota hlífðargrímur þegar ekki er unnt að halda tveggja metra fjarlægð. Til að mynda í almenningssamgöngum, einkum í flugvélum og ferjum. Einnig á hárgreiðslustofum, snyrtistofum, nuddstofum, hjá augnlæknum, tannlæknum og þar sem fólk er í miklu návígi. 

„Tveir metrarnir, þeir eru aðalatriðið. Þannig að ef þú getur tryggt tveggja metra bil þá þarf ekki grímu. Þess vegna biðjum við fólk að hugsa alltaf hver er fjöldinn á þessum stað þar sem þú ert, hver er nándin og hver er tíminn sem þú sérð fram á að vera nálægt öllu þessu fólki. Ef þetta eru fáir einstaklingar, eins og ef þú kemur í strætó og það eru kannski bara tvær hræður í strætó, þá þarf ekki að vera með grímu. Þú getur setið tvo metra frá viðkomandi,“ segir Ása Atladóttir, verkefnastjóri sýkingavarna hjá sóttvarnarlækni.

Ef fólk sér fram á að vera lengur en fimmtán mínútur í návígi við fólk þarf grímu. Hlífðargríma kemur ekki í stað tveggja metra reglunnar t.d. í verslunum og á skemmtistöðum. Gríman þarf að ná vel yfir nefið og munninn.

Og fólk tók vel við sér eftir að tilkynnt var um grímuskylduna. Mikið hafði selst af þeim í Lyf og heilsu í Kringlunni um miðjan dag.  

„U, já, alveg fullt af grímum. Þetta rýkur alveg rosalega mikið út,“ segir Dagmar Magnadóttir, birgðafulltrúi hjá Lyf og heilsu í Kringlunni.

Þannig að þið eruð að verða búin með það sem þið eruð mér hérna?

„Já, búin að fá meira að segja lánað frá öðrum apótekum þannig að við erum að klára restina af því sem við eigum og vonumst til að fá meira á morgun,“ segir Dagmar.

Eftirpurnin var engu minni hjá Rekstrarvörum og það var handagangur í öskjunni við að ná sér í grímur. Framkvæmdastjóri segist selst hafi næstum heill gámur af grímum. Kalla þurfti út auka mannskap í versluninni. 

„Hlutverk grímu er að fanga dropa sem koma upp úr hverjum og einum sem ber grímuna, þá verður nún náttúrulega mjög menguð. Fólk þarf að muna það að vera ekki að káfa í grímunum. Og ef það þarf eitthvað að vesenast í grímunni þá þarf það að þvo hendurnar á eftir eða spritta,“ segir Ása.

Hún segir best að nota einnota, marglaga pappírsgrímu. 

„Þegar hún er orðin rök þá gerir hún voðalega lítið gagn,“ segir Ása.

Þá á að henda grímunni í ruslið og taka fram nýja. Taugrímur er líka leyfðar. 

„En það verður þá að vera úr efni sem hægt er að þvo og það er algjört lágmark að þvo slíka grímu einu sinni á dag,“ segir Ása.

Þeir sem hyggjast sauma sér taugrímur geta nálgast upplýsingar um það hér sem og nánari upplýsingar um hlífðargrímur.