Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Stöðva vegaframkvæmdir í Vesturdal

30.07.2020 - 14:44
Mynd með færslu
 Mynd: Sigþrúður Stella Jóhannsdót
Vegaframkvæmdir um Vesturdal hafa verið stöðvaðar í bili. Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, kærðu framkvæmdirnar í síðustu viku. Ekki er vitað hvenær framkvæmdir hefjast á ný.

Vegagerðin hefur gert hlé á framkvæmdum í Vesturdal. Kjarninn greindi frá í morgun og G. Pétur Matthíasson staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. 

Hann segir að framkvæmdir á umræddu svæði hafi verið stöðvaðar á meðan Vegagerðin, Norðurþing og Vatnajökulsþjóðgarður skoði stöðuna og hvaða möguleikar séu í boði. Það sé ekki ljóst hversu lengi stöðvunin vari en þau hafi góðan tíma þar sem þessi hluti vegarins eigi ekki að klárast fyrr en á næsta ári samkvæmt áætlun. Dettifossvegurinn sjálfur eigi hins vegar að klárast á árinu. Umrætt svæði er afleggjari frá dettifossvegi niður í Vesturdal að bílastæðum við Hljóðakletta.   

Á föstudaginn lögðu Samtök um Náttúruvernd á Norðurlandi, SUNN, fram kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og stöðvunarkröfu vegna vegaframkvæmda í Vesturdal. Samtökin telja að framkvæmdin sé ekki í samræmi við verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs um lágstemmdar vegabætur í Vesturdal.

Fulltrúar frá Vegagerðinni og SUNN ásamt þjóðgarðsverði hafa fundað og skoðað svæðið. Þegar hefur verið ákveðið að lækka veginn að ósk þjóðgarðsvarðar og til að koma til móts við athugasemdir. Frekari aðgerðir eru í skoðun.