Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Stanslausar sýnatökur frá því faraldur hófst

30.07.2020 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Umdæmislæknir á Vestfjörðum segir dæmi um að fólk með kvef hafi neitað að koma í sýnatöku vegna kórónuveirunnar. Framkvæmdastjóri hjúkrunar á Austurlandi segir sýnatöku hafa aukist í kjölfar nýrra smita.

Sýnataka á landsbyggðinni vegna COVID-19 hefur staðið yfir í allt sumar. Jón Torfi Halldórsson, yfirlæknir heilsugæslunnar á Akureyri, segir sýnatöku þar hafa verið öfluga og sýni hafi verið tekin daglega í sumar.

Nína Hrönn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands, segir að þar séu einnig tekin sýni daglega en meirihlutinn séu erlendir verkamenn. Hún segir ekki hafa verið mikið um sýnatöku vegna einkenna en hafi færst í aukana í kjölfar frétta af nýjum smitum.

Um 5 sýni á dag síðan í maí

Súsanna Björg Ástvaldsdóttir, umdæmislæknir sóttvarna á Vestfjörðum, segir að um fimm manns hafi mætt í sýnatöku vegna einkenna á hverjum degi frá því í maí þegar stjórn náðist á faraldrinum. Sýnataka hafi hins vegar ekki aukist síðustu vikur í kjölfar nýrra smita. Hún segir þau hins vegar vonast til þess að fólk hafi mjög lágan þröskuld og mæti í sýnatöku.

Fólk vill ekki greinast með veiruna

Súsanna Björg segir þau hafi fundið fyrir trega hjá fólki til að koma í sýnatöku og lent í því að fólk með kvefeinkenni hafi hreinlega neitað að koma í sýnatöku. Það hafi þó komið eftir tiltal. „Fólk vill í rauninni ekki greinast með COVID. Því miður, þá er það svo mikilvægt að þegar fólk er með einkenni, alveg sama hversu lítil þau eru að þau mæti í sýnatöku svo við náum stjórn á faraldrinum, ef hann kemur upp aftur, sem fyrst“.