Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sprenging í sölu gríma eftir fundinn í morgun

30.07.2020 - 14:36
Mynd með færslu
 Mynd: Landspítali/Þorkell Þorkelsso
Algjör sprenging varð í sölu andlitsgríma eftir blaðamannafundinn í morgun þar sem kynntar voru hertar aðgerðir vegna nýrra COVID-19 smita innanlands. Þar var meðal annars kveðið á um að nota skyldi grímur ef ekki væri hægt að tryggja tveggja metra regluna og ef fólk ætlaði að nýta sér almenningssamgöngur og innanlandsflug. „Þetta er meiri sprenging en þegar COVID var að byrja,“ segir framkvæmdastjóri Rekstrarvara.

Grímuskyldan er talsverð nýmæli hér á landi því sóttvarnalæknir hefur talað um að þær veiti fólki falskt öryggi gagnvart COVID-19. 

Einar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Rekstrarvara, segir í samtali við fréttastofu að góðu tíðindin séu þau að nóg sé til af þessum vörum hjá þeim. „Við erum með samninga við ákveðnar lykilstofnanir; Keflavíkurflugvöll, Icelandair, heilsugæslurnar og hjúkrunarheimili. En núna bætast við rútufyrirtæki, almenn fyrirtæki auk einstaklinga.“

Einar segir að fyrirtækið hafi verið duglegt að birgja sig upp þegar ljóst var í hvað stefndi í vetur. Því hafi verið haldið áfram þótt hægt hefði á faraldrinum í byrjun sumars „því við vissum að þetta væri ekki að fara fyrr en það væri komin í bólusetning.“ Þetta hafi hins vegar gerst svolítið hratt eftir fundinn í morgun. „Við erum út í miðri á og erum bara að reyna að synda,“ segir Einar sem vildi koma á framfæri þakklæti til viðskiptavina fyrir biðlundina. „Það er mikið að gera og við höfum þurft að kalla út auka-mannskap.“

Hermann Guðmundsson, framkvæmdastjóri KEMI, segir að fyrirtækið hafi ekki haft undan eftir fundinum lauk í morgun. Síðasta gríman hafi verið seld tæpum tveimur tímum eftir að útsendingu frá fundinum lauk.  „Við höfum pantað nýjar grímur með flugi sem koma eftir helgi.“ Hann segir þetta aðallega fyrirtæki sem eru að útvega starfsmönnum sínum grímur og svo ferðaþjónustufyrirtæki sem þurfi nú að fara eftir nýjum „grímureglum.“

Þetta séu líka einstaklingar, eldra fólk og fólk sem er með undirliggjandi sjúkdóma og er því í áhættuhópi. „Það er ljóst að það er ákveðin ótti að þetta sé komið á flug á ný.“ Fréttastofa hefur einnig haft spurnir af því að grímur séu að seljast upp í apótekum. Starfsmaður Lyf og Heilsu út á Granda segir að fljótlega eftir að fundinum lauk hafi fólk komið til að kaupa grímur. Þriggja laga grímurnar séu búnar en eitthvað sé eftir af tveggja laga.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV