Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sögðust ekki hefta samkeppni fyrir bandaríska þinginu

30.07.2020 - 09:59
Mynd: EPA-EFE / AFP POOL
Hart var sótt að forstjórum tæknirisanna Facebook, Google, Amazon og Apple í bandaríska þinginu í gær og þau sökuð um að hefta samkeppni. Fyrirtæki höfnuðu því almennt, þó að ekki væri útilokað að eitthvað misjafnt hefði átt sér stað.

Þetta er í fyrsta sinn sem forstjórar allra fjögurra tæknirisanna koma saman fyrir bandaríska þingið, og Jeff Bezos hjá Amazon hefur ekki gert það áður. Vegna Covid nítján var það gert gegnum fjarfundarbúnað. Spurningar þingmanna sneru aðallega að því hvort fyrirtækin væru orðin og ráðandi í efnahagslífi Bandaríkjanna og heimsins alls. 

Dómsmálaráðuneytið og viðskiptaráð Bandaríkjanna hafa rannsakað viðskiptahætti fyrirtækjanna. Í yfirheyrslunum var meðal annars spurt um kaup Facebook á Instagram og öðrum keppinautum.

Spurð um markaðsráðandi stöðu

„Þú keyptir Instagram til að eyða ógn frá samkeppni.“ Þannig hófst til dæmis spurning Jerry Nadler, formanns dómsmálanefndar fulltrúadeildar bandaríska þingsins.

Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, svaraði því til að það væri ekki tryggt að Instagram gengi vel. „Viðbótin hefur klárað sig afburða vel, og þá aðallega vegna þess að... ekki aðeins vegna hæfileika stofnendanna heldur af því að við fjárfestum mikið í grunnstoðunum,“ sagði Zuckerberg.

Apple varðist ásökunum um að nýta sér yfirburði AppStore til að dreifa öppum.

„Svo að við mætum mikilli samkeppni bæði frá vöruþróun og frá viðskiptavinum; svo mikilli samkeppni að ég líkti henni helst við götuslagsmál til að ná markaðshlutdeild í snjallsímageiranum,“ sagði Tim Cook, forstjóri Apple.

Forstjóri Amazon átti erfitt með að svara beint spurningu um hvort hann hefði notað sölutölur frá öðrum í eigin þágu, þá með því að lækka verð á eigin sambærilegri vöru.

„Ég get ekki svarað þeirri spurningu játandi eða neitandi. Ég get samt sagt við höldum okkur við stefnu um að nýta ekki sértækar söluupplýsingar til að styðja við framleiðsluvörur okkar en ég get ekki tryggt að aldrei hafi verið farið gegn þeirri stefnu,“ sagði Jeff Bezos, forstjóri Amazon.

Þá var gefið í skyn að tæknifyrirtækin væru á móti Repúblíkönum. „Getur þú fullvissað bandaríska almenning um að þið sníðið ekki viðmót ykkar á nokkurn hátt til að styðja frekar við einn frambjóðanda en annan? Og þá sérstaklega að styðja Joe Biden gegn Trump forseta?“ spurði Jim Jordan, þingmaður Repúblikana.

Sunder Pichai, forstjóri Google, var til svara og sagði: „Við gerum ekkert til að hafa pólitísk áhrif á einn veg eða annan. Það er andstætt grunngildum okkar.“