Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sagður hafa leynt eignum sínum á Spáni og í New York

epa08479891 Protestors hold up signs while demonstrating in the street past The Plaza Hotel in New York, USA, 11 June 2020, over the death of George Floyd. A bystander's video posted online on 25 May, appeared to show George Floyd, 46, pleading with arresting Minneapolis Police officers that he couldn't breathe as an officer knelt on his neck. The unarmed Black man later died in police custody. According to news reports on 29 May, Derek Chauvin, the police officer in the center of the incident has been taken into custody and charged with murder in the George Floyd killing. On 03 June three other officers on scene were charged with aiding and abetting murder of second degree.  EPA-EFE/JASON SZENES
 Mynd: EPA - RÚV
Héraðssaksóknari hefur ákært Guðmund A. Birgisson, oftast kenndan við bæinn Núpa í Ölfusi, fyrir 300 milljóna skilasvik og peningaþvætti. Guðmundi er gefið að sök að hafa haldið frá skiptastjóra þrotabús síns eignum sem hann átti á Spáni og í Bandaríkjunum. Þá er hann einnig sagður hafa komið undan málverki eftir hollenskan listmálara sem síðar var selt hjá uppboðsfyrirtækinu Christie's í Amsterdam fyrir tæpar 3 milljónir króna.

Guðmundur var úrskurðaður gjaldþrota í desember 2013.  Hann var mjög umfangsmikill fjárfestir á árunum fyrir hrun,  átti meðal annars hlut í Lífsval sem var eitt stærsta jarðarfélag landsins. Það keypti á fimmta tug jarða víðsvegar um landið, sauðfjárbú, kúabú og réð auk þess yfir rúmlega milljón lítra mjólkurkvóta. 

Skiptastjóri spurði sérstaklega um eignirnar

Í ákæru héraðssaksóknara er Guðmundur sagður hafa átt íbúðarhúsnæði á Alicante á Spáni, húsnæði í Naples á Flórída og stóran eignarhlut í tveimur íbúðum í íbúðarhluta hinnar glæsilegu Plaza-byggingar á Manhattan í New York.

Segir saksóknari að þegar Guðmundur hafi komið í fyrstu skýrslutöku hjá skiptastjóra þrotabúsins hafi hann ekki upplýst um þessar eignir sínar. Hann hafi auk þess neitað sérstaklega að fyrir hendi væru aðrar eignir en þær sem skýrslutaka skiptastjórans beindist að.

Þá hafi hann veitt skiptastjóranum rangar eða villandi upplýsingar um fasteignirnar og eignarhald þeirra í tölvupósti til skiptastjórans í tilefni af fyrirspurnum hans um „íbúð í Naples“, „íbúðir í Plaza hótel New York“ og „hús á Spáni“.

Málverk selt í Amsterdam

Saksóknari segir að Guðmundur hafi auk þess staðið að ráðstöfunum á eignarhaldi eða hagsmunum tengdum fasteignunum í Bandaríkjunum á árunum eftir að bú hans hafði verið tekið til gjaldþrota. Þessar ráðstafanir hafi miðað að því að eignarhald eða kröfur búsins kæmu kröfuhófum þess ekki að gagni. 

Fram kemur í ákærunni að fasteignirnar hafi síðar komist í umráð þrotabúsins og þær verið seldar fyrir 287 milljónir.

Guðmundur er einnig ákærður fyrir að hafa komið undan málverki eftir hollenska listamanninn Corneille sem sumir vilja meina að sæki innblástur sinn til Miro og Klee. Í ákærunni kemur fram að Guðmundur hafi ekki greint frá verkinu þrátt fyrir að skiptastjóri teldi svör hans við spurningum um listaverkaeign hafa verið ófullkomin. Verkið var selt hjá uppboðsfyrirtækinu Christie's í Amsterdam fyrir tæpar þrjár milljónir og segir saksóknari að ekki sé vitað hvað varð um þann pening.

Upplýsti ekki um eign í fjárfestingarsjóði

Guðmundur er sömuleiðis ákærður fyrir að hafa ekki upplýst um eign í bandaríska fjárfestingarsjóðnum Equity Resources Investments sem staðsettur er í Massachussetts. Þrotabúið þurfti dómsúrskurð í Bandaríkjunum til að fá yfirráð yfir eignum Guðmundar þar. Var eign hans í fjárfestingarsjóðnum seld fyrir rúmar þrjár milljónir króna.

Guðmundur var einn af umsjónarmönnum minningarsjóðs Sonju Zorilu sem hagnaðist vel á viðskiptum á Wall Street . Sjóðnum var ætlað að styrkja langveik börn á Íslandi og í Bandaríkjunum en áætlaðar eignir Sonju um aldamótin voru um tíu milljarðar.

Guðmundur var ekki sáttur við skiptastjóra þrotabúsins og reyndi að fá honum vikið úr starfi fyrir fjórum árum þar sem hann taldi hann vera vanhæfan. Héraðsdómur Suðurlands féllst ekki á þá kröfu. Í dóminum kom fram að þrotabúið hefði staðið í málarekstri í Bandaríkjunum og hefði auk þess þurft að höfða 11 riftunarmál.

mbl.is greindi fyrst frá ákærunni sem verður þingfest í Héraðsdómi Suðurlands.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV