Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Nýr grímuklæddur veruleiki á hádegi á morgun

30.07.2020 - 13:36
epa08443359 Several people wearing protective face masks keep a social distance as they travel in the subway, in Barcelona, Catalonia, Spain on 25 May 2020 during the first day of phase 1 of deescalation amid coronavirus pandemic in Barcelona. Madrid, Barcelona and Castilla Leon begin phase 1 of the desescalation, while the rest of the country is on phase 2.  EPA-EFE/Marta Perez
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Björn Leifsson, forstjóri líkamsræktarkeðjunnar World Class, segir að starfsemi líkamsræktarstöðvanna verði með svipuðum hætti og var. Annað hvert upphitunartæki verði tekið úr notkun, fækkað verði í hóptímum og 100 manna samkomubann virt. „Þetta er helvíti skítt,“ segir Björn. Vert í Reykjavík segir aðgerðirnar sem kynntar voru á blaðamannafundi í morgun horfi alls ekki vel við þeim. Framkvæmdastjóri Strætó segir að grímulausir farþegar fái ekki að koma inn í vagnana.

Íslendingar vöknuðu upp við „gamlan veruleika“ í morgun þegar heilbrigðisráðherra kynnti hertari aðgerðir að tillögu sóttvarnalæknis.  Innanlandssmitum hefur fjölgað mjög síðustu daga og því töldu yfirvöld nauðsynlegt að grípa inn í.

Í reglunum er meðal annars sú nýjung að farþegar í almenningssamgöngum skuli bera andlitsgrímur. Hingað til hefur sóttvarnalæknir ekki verið fylgjandi grímunotkun og sagt þær vera falskt öryggi.  Nýr tónn var sleginn í morgun; þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra reglu á fólk að vera með grímu. Það sem meira er þá eiga þeir sem nýta sér almenningssamgöngur einnig að bera grímur. Þetta á bæði við um Strætó og innanlandsflug.

Á bilinu 20 til 30 þúsund farþegar nýta sér þjónustu Strætó á hverjum degi.  Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir að bílstjórarnir muni fá heimild til að vísa út farþegum sem ekki bera grímu. Bílstjórarnir verða sjálfir með grímur og verið er að setja upp hlífðargler í vagna fyrirtækisins. „Þetta er komið í einhverja vagna og því lýkur vonandi fyrir haustið,“ segir Jóhannes, enda liggur fyrir að veirufaraldurinn verður í gangi eitthvað fram á næsta ár og jafnvel lengur.  Jóhannes segir það ekki ganga upp að Strætó útvegi farþegum grímur.

Einhver strætisvagnakort eru með myndir af viðkomandi áskrifanda. Jóhannes segir að bílstjórar muni ekki krefjast þess að fólk taki niður grímuna til að sanna deili á sér „heldur treystum við á heiðarleika fólks.“ 

Í reglunum er einnig kveðið á um að söfn, skemmtistaðir og aðrir opinberir staðir geri hlé á starfsemi sinni verði ekki hægt að tryggja að farið sé eftir fjöldatakmörkun eða að bil milli ótengdra aðila sé yfir 2 metrum.

Arnar Þór Gíslason, framkvæmdastjóri og eigandi nokkurra bara í Reykjavík, segir í samtali við fréttastofu að þessar reglur horfi ekkert sérstaklega vel við þeim.  Hann hafi verið undrandi á þeim aðgerðum að opna landamærin svona fljótt og nú sé búið að gerast það sem þeir óttuðust - faraldurinn kominn á fullt á ný. 

Hann segir að þeir muni gera allt til að reyna að hafa opið en þetta sé alls ekki nein óskastaða. „Við þurfum að skipuleggja okkur upp á nýtt og erum fljót að aðlagast.“

Reglurnar varðandi líkamsræktarstöðvar eru líka nokkuð skýrar. Annaðhvort geri fyrirtæki þar sem gestir nota sameiginlegan búnað hlé á starfsemi sinni eða sótthreinsi hann milli notenda. 

Björn Leifsson, forstjóri World Class, segir að nú verði farið í að fjarlægja annað hvert upphitunartæki í líkamsræktarstöðvunum, passa upp á að tveir metrar séu á milli manna í tækjum og fækka í hóptímum. Hann segir það lán í óláni að nú er rólegasti tíminn. „Þetta er bara copy/paste á því sem var síðast.“ Hann segir að sem betur fer hafi ekkert smit komið upp tengt líkamsræktarstöðvunum, „en þetta er helvíti skítt.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV