Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Listamenn ausa úr skálum reiði sinnar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Listamenn ausa úr skálum reiði sinnar

30.07.2020 - 16:29

Höfundar

Hljóðið er þungt í tónlistarmönnum eftir að hertar aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins voru kynntar í morgun. Ljóst er að lítið mun fara fyrir tónleikahaldi næstu tvær vikur og fjölmargir listamenn sitja eftir með sárt ennið. Fjölmargir hafa ausið úr skálum reiði sinnar á samfélagsmiðlum og fá bæði stjórnvöld og ferðaþjónustan á baukinn. Fyrirliði íslenska landsliðsins kemur þeim þó til varnar.

Óhætt er að segja að samfélagsmiðlar hafi logað eftir stjórnvöld kynntu aðgerðirnar í morgun.

Tveggja metra reglan var tekin upp að nýju og samkomubann er nú bundið við 100 manns í stað 500. Ekki er langt síðan að sóttvarnalæknir tilkynnti að stefnan væri tekin á samkomur með meira en þúsund manns en þau áform voru fljótlega blásin af eftir að innanlandssmitum fjölgaði hratt. 

Söngvarinn Friðrik Ómar reyndi að sjá björtu hliðarnar og og sagðist taka að sér söng við getnað í COVID enda væri hann atvinnulaus. Og uppskar mikið lof frá samstarfsmönnum í tónlistarbransanum.

Rapparinn Emmsjé Gauti sendi þátttakendum á Rey Cup tóninn á Twitter en dró síðan aðeins í land og sagði blendnar tilfinningar í gangi. „Auðvitað er þetta nauðsynlegt. Ég er samt svo reiður og sár.

Bubbi Morthens sagði ferðabransann ráða, landamærin væru opnuð en „við hin tökum höggi.“

Rapparinn Króli greindi frá því að hann og samstarfsfélagi hans JóiP hafi ætlað að tilkynna um tónleika sem halda átti seinna. Nú sé ljóst að ekkert verði af þeim tónleikum.

Saga Garðarsdóttir, uppistandari og leikkona, sagði að henni þætti gaman ef landið væri lokað fyrir ferðamönnum.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að hugur hennar sé fyrst og fremst hjá „öllu okkar frábæra tónlistarfólki, skemmtikröftum og tæknifólki sem nú þarf aftur og áfram að horfa fram á algjört tekjufall.“ Í athugasemdum bætir hún við að helgin sem hafi verið framundan hefði átt að vera býsna mikilvæg tekjulind „eftir algjöra eyðimörk frá því í febrúar.“

Stjórnvöld fá þó stuðning frá landsliðsfyrirliðanum Aroni Einar Gunnarssyni. Hann biður fólk um að vera áfram jákvæð, drepa veiruna í fæðingu  „og treystum fólkinu sem kom okkur út úr þessu síðast.“