Líklegt að öflugt smit sé úti í samfélaginu

30.07.2020 - 19:36
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Kári Stefánsson segir ástandið nú vera skuggalegt og að grípa þurfi til róttækari aðgerða en kynntar voru í morgun. Niðurstöður raðgreiningar á vegum Íslenskrar erfðagreiningar benda til þess að í samfélaginu séu smit sem tengjast ekki en séu mjög öflug.

Aðgerðir voru hertar vegna fjölda tilfella sem hafa greinst síðustu daga. Í morgun fengust niðurstöður úr raðgreiningu hjá Íslenskri erfðagreiningu sem benda til þess að samfélagslegt smit sé komið á kreik.

„Það eru að minnsta kosti sjö aðilar úti í samfélaginu sem eru sýktir af þessari veiru með sama mynstur af stökkbreytingum sem bendir til þess að þeir hafi allir sýkst af veiru sem kemur af sama brunni. Það er ekki vitað um nein tengsl á milli þessara aðila  sem þýðir að  það hljóta að vera einhverjir úti í samfélaginu sem eru líka sýktir og tengja þá saman. Það gætu verið fáir einstaklingar en það gætu líka verið mjög margir einstaklingar. “ segir Kári.

Hann segir að aðgerðir sem kynntar voru í morgun séu nauðsynlegar. Hann treysti dómgreind Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis og tillögum hans til heilbrigðisráðherra.

„Ef ég hefði verið í hans stöðu, og nú er þessi þjóð sjálfsagt talsvert heppin að ég var það ekki. Ef ég hefði verið í hans stöðu hefði ég látið loka vínveitingahúsum. Ég hefði minnkað þennan hóp sem má koma saman niður í tuttugu, ég hefði viljað að það hefði verið skimað hjá öllum sem koma inn í landið. Hins ber að geta að sóttvarnarlæknir hefur sagt að ef að hans aðgerðir dugi ekki muni hann herða enn meira. Það er hins vegar alltaf gott  í svona kringumstæðum eins og  þessum að bregðast hratt við og bregðast við á þann hátt að það sé óyggjandi að það dugi.“ segir Kári.

Í gær hófst skimun að nýju á vegum Íslenskrar erfðagreiningar. Um tvö hundruð manns fóru í sýnatöku í gær og Kári gerði ráð fyrir að um átta hundruð manns kæmu í skimun í dag. Niðurstöður hennar gefi betri mynd af smiti í samfélaginu.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi