Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Kórónuveirusmit í matvælafyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu

Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Kórónuveirusmit er komið upp hjá starfsmanni fyrirtækis á höfuðborgarsvæðinu sem flytur inn og dreifir matvælum. Forstjóri fyrirtækisins segir í samtali við fréttastofu að smitið hafi komið upp í byrjun vikunnar í tíu manna deild þar sem vörum er pakkað og þær merktar. Eitt smit til viðbótar hafi greinst hjá starfsmanni í þeirri deild og alls séu því smitin tvö í fyrirtækinu.

Forstjórinn segir að ráðist hafi verið umfangsmikla sótthreinsun og aukið hafi verið við hreingerningar og sóttvarnir. Hann segir að ekki sé hætta á að dropasmit hafi verið á umbúðum matvæla sem hafi farið frá fyrirtækinu. Starfsfólkinu hafi verið skipt upp og tryggt að hóparnir hittist ekki. 

Fréttastofa RÚV hafði samband við heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vegna málsins. Þar hafði fólk ekki frétt af smitinu og það því ekki verið tilkynnt eftirlitinu. Framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins segir að málið verði skoðað. Samkvæmt  heimildum fréttastofu hafa forráðamenn matvælafyrirtækisins verið í sambandi við sóttvarnalækni og smitrakningateymi frá því smitið greindist.

Fréttin hefur verið uppfærð.