Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íslenskir garðyrkjubændur vilja efla útirækt

30.07.2020 - 10:57
Mynd: Fréttir / Fréttir
Íslenskir garðyrkjubændur þyrftu að geta ræktað um 60% af því grænmeti sem Íslendingar neyta, af þeim grænmetistegundum sem hér eru ræktaðar. Gunnar Þorgeirsson, garðyrkjubóndi á Ártanga í Grímsnesi og formaður Samtaka garðyrkjubænda og Bændasambands Íslands, segir gróðurhús spretta upp eins og gorkúlur þessa dagana.

Gunnar, sem var í viðtali á Morgunvaktinni í morgun, segir íslenska grænmetisbændur rækta á milli 45-47% af heildarmagni neyslu þeirra tegunda tegunda sem ræktaðar eru hér á landi.

„Því miður, við þyrftum að vera í 60%,“ segir hann. „Ef við tökum allt þetta græna sem við erum að borða en sleppum ávöxtunum þá erum við einhvers staðar rétt um 30% af öllu þessu græna. Við erum svo í 46% af þeim vörum sem við framleiðum líka hér heima.

Gunnar segir garðyrkjubændur hafa rætt það mikið hvernig megi efla ræktunina. „Í fyrsta lagi þarf að efla útiræktun á grænmeti,“ segir hann og kveður Íslendinga geta gert umtalsvert betur í þeim efnum. „Þar getum við líka verið að horfa til þess af hverju við getum ekki verið að framleiða lauk á Íslandi, af því að það er alveg hægt. Við bara finnum einhvern sem að treystir sér í verkefnið.“

Eins sé radísurækt vannýtt tækifæri. „Við erum að flytja þetta inn eins og enginn sé morgundagurinn og þetta vex hérna nánast eins og arfi,“ segir Gunnar og bendir á að íslenskir neytendur kalli eftir íslensku grænmeti og í því felist sóknarfæri.

„Það eru ótrúlega margar tegundir sem við getum alveg ræktað hérna heima og við þurfum bara að fara að halda utan um það og beina mönnum og konum í réttar brautir.“

Gunnar segir líka vera mikinn metnað hjá garðyrkjubændum. „Það er mikill hugur í bændum og ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem byggðir eru yfir 10.000 fermetrar á einu sumri í garðyrkjunni. Þannig að það eru að spretta upp gróðurhús eins og gorkúlur í sumar þar sem menn ætla að gera enn betur.“

Ástæðu þessa segist Gunnar telja að samningar við íslenska ríkið voru endurnýjaðir á vordögum. „Þar sem við sjáum alla vega fyrirsjáanleika til 2026 á stuðningi ríkisins við garðyrkjuna,“ segir hann og kveður aukin stuðning varðandi raforkukostnað og útirækt koma sér vel.

„Ég held að menn sjái svolítið ljósið í myrkrinu og að það sé framtíð í íslenskri garðyrkju.“

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Gunnar Þorgeirsson, formaður Samtaka garðyrkjubænda og Bændasambands Íslands