Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Hertar reglur á Landspítala vegna COVID-19

30.07.2020 - 09:03
Mynd með færslu
 Mynd: Ásvaldur Kristjánsson - Landspítali
Farsóttanefnd og Landspítali hafa ákveðið að herða reglur um aðgengi að spítalanum í ljósi þess að COVID-19 smitum hefur fjölgað í samfélaginu. Hertar reglur taka gildi í dag.

Í fyrradag greindust fjögur smit innanlands og þá voru virk smit á landinu orðin 28. Þar sem ekki hefur tekist að rekja uppruna allra smitanna metur farsóttanefndin það svo að gera megi ráð fyrir að veiran sé útbreiddari en opinber gögn vitni um.

Gripið hefur verið til aðgangatakmarkana á spítalanum bæði hjá gestum og sjúklingum, heimsóknartími hefur verið takmarkaður verulega og starfsmenn sem taka á móti sjúklingum þurfa að bera skurðstofugrímu þar til búið er að útiloka að sjúklingurinn sé með COVID-19.

Allir sem leita þjónustu Landspítala og hafa dvalið erlendis sl. 14 daga, óháð því hvort um skilgreint áhættusvæði er að ræða, eiga að vera meðhöndlaðir í sóttkví í tvær vikur frá komunni til landsins. Á biðstofu verður tveggja metra regla og rík krafa um að þvo hendur og nota handspritt. 

Þá þurfa starfsmenn spítalans, sem snúa til vinnu eftir dvöl erlendis eða koma í afleysingar, að fara í sóttkví C við komuna til landsins og tvöfalda sýnatöku.

Lagt er til að deildir með sérstakar aðstæður útbúi áætlun um heimsóknir sem falla að starfseminni, til dæmis bráðamóttökur. 

Nánari upplýsingar um ráðstafanir Landspítala má sjá hér.

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV