Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Einn lagður inn á sjúkrahús vegna COVID-19

30.07.2020 - 10:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Einn hefur verið lagður inn á Landspítala með COVID-19. Þetta er fyrsta innlögnin á sjúkrahús í tengslum við faraldurinn síðan í vor. Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Viðbúnaðarstig á spítalanum verður hækkað úr viðbragðsstigi yfir á hættustig. Viðkomandi sjúklingur er á legudeild en Már segir að það hafi þótt ástæða til að leggja hann inn vegna einkenna.

„Þetta er táknrænn atburður um að það séu meiri veikindi út í samfélaginu heldur en við höfum getað staðfest. Og það hefur reynst okkur vel í fyrri glímum við faraldurinn að vera dugleg að skima og ég held að það eigi alveg við núna,“ segir Már í samtali við fréttastofu.

Innanlandssmitum hefur fjölgað hratt síðustu daga og búist er við að ríkisstjórnin kynni hertar aðgerðir á blaðamannafundi sem hefst núna klukkan 11. Sýnt verður beint frá fundinum á RÚV, ruv.is og honum útvarpað á Rás 2.

Þessi fyrsta innlögn inn á spítala hefur nokkur áhrif. Már reiknar með að viðbúnaðarstig almannavarna verði hækkað og Landspítali mun færa sig af viðbragðsstigi yfir á hættustig.  „Sem þýðir að það verða ýmsar breytingar í starfsemi okkar. Við þurfum líka að hyggja að öðrum breytingum og fara setja okkur í þær stellingar að það gætu komið fleiri sjúklingar.“ Innlögnin hafi því heilmikla þýðingu.

Már segir að spítalinn hafi ferskar viðbragðsáætlanir og starfsfólk hans kunni þetta vel. Það hafi því ekki verið neitt sérstaklega flókið að virkja þetta á ný og taka á móti fyrsta sjúklinginum. „En það er náttúrulega há-sumar og ansi margir í sumarleyfum. Þetta er verðugt viðfangsefni en við ráðum alveg fram úr þessu.“

Már segist ekki hafa áhyggjur af stöðunni. Þetta sé viðfangsefni sem þurfi að takast á við af skynsemi. „En það var komin ákveðin afslöppun í samfélagið og þetta er brýningin til okkar allra um að hyggja vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum, fjarlægð milli einstaklinga eins og sóttvarnayfirvöld hafa verið að predika allan tímann.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV