Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Dönsk yfirvöld auka ferðafrelsi Dana

30.07.2020 - 17:02
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Á sama tíma og hert er á samkomubanni á Íslandi hefur danska utanríkisráðuneytið losað um ferðahömlur. Dönum er nú óhætt að ferðast til allra héraða í Svíþjóð, en fram að þessu hefur ráðuneytið ráðið fólki frá því að fara til vissra staða í landinu nema nauðsyn beri til.

Ráðuneytið ráðleggur Dönum engu að síður að fara varlega ef þeir fara yfir Eyrarsundsbrúna. Kórónuveirusmitum hefur farið fækkandi í Svíþjóð í þessum mánuði og greinast nú um 100 smit á dag í stað rúmlega 1.000 áður.

Einnig hefur verið opnað fyrir ferðalög til Portúgal, en fram að þessu hafði Dönum verið ráðið frá því að ferðast þangað.

Hættustigið í Rúmeníu var hækkað á sama tíma og ráðleggja dönsk yfirvöld frá ferðum þangað að nauðsynjalausu. Einnig er mælst gegn ferðalögum til Lúxemborgar og Búlgaríu.

Danska ríkisútvarpið DR greinir frá og segir viðmið ráðuneytisins vera að smit séu færri en 20 á hverja 100.000 íbúa.