
„Biðla til allra að vera heima hjá sér“
Hátíðum víða um land aflýst
Skömmu eftir að upplýsingafundur ríkisstjórnarinnar og Almannavarna hófst í dag tóku að hrúgast inn tilkynningar um viðburði sem búið væri að aflýsa. Sæludagar í Vatnaskógi riðu á vaðið og aflýstu öllum hátíðahöldum. Því næst tilkynntu bæjaryfirvöld á Akureyri að „Ein með öllu" yrði blásin af. Í kjölfarið fylgdu tilkynningar frá Innipúkanum í Reykjavík, Fjölskylduhátíð á Hótel Selfossi, Berjadögum á Ólafsfirði og Verslunarmannahelgarhátíð á Borgarfirði eystra. Þá hefur ýmsum minni viðburðum víða um land verið slegið á frest.
Tjaldstæðin á Akureyri orðin full
Davíð Rúnar Gunnarsson, skipuleggjandi Einnar með öllu hvetur fólk til að hugsa sig tvisvar um áður en það leggur leið sína norður þessa helgina.
„Það var náttúrlega ekkert annað í boði. Við náttúrlega erum að hugsa um okkur og alla hina í kringum okkur og eftir fundinn í morgun þá náttúrlega var þetta mjög einfalt mál og við gerum þetta gjörsamlega með bros á vör. Það er komið fullt af fólki í bæinn, það streymir fólk í bæinn. Það er ákveðið áhyggjuefni, ég veit að tjaldstæðin eru að fyllast ef þau eru ekki orðin full. Ég biðla til allra að vera heima hjá sér,“ segir Davíð.
Veitinga- og skemmtistaðir afturkalla leyfi
Þrátt fyrir að búið væri að aflýsa Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum stóð til að halda þar smærri viðburði um helgina. Allir þeir veitinga- og skemmtistaðir sem höfðu sótt um að fá að selja áfengi utandyra í Vestmannaeyjum hafa afturkallað umsókn sína. Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum segir bæjarbúa sýna mikla ábyrgð.
„Það sem var búið að sækja um, tækifærisleyfi og annað sem var sótt um til okkar, það er búið að afturkalla það allt. Fólk sýnir bara mikla samfélagslega ábyrgð og mér finnst allir bara ætla að taka þessa helgi þannig að þú ert með fjölskyldu og nánum vinum.“