
Appelsínugul viðvörun og hætta á skriðuföllum
Vindaveðrið getur skapað hættuleg skilyrði, sér í lagi fyrir ökutæki með aftanívagna. Vakthafandi veðurfræðingur sagði í samtali við fréttastofu í gærkvöld að föstudagurinn væri afleitur til ferðalaga í landshlutanum.
Gular viðvaranir eru í gildi í þremur landshlutum á morgun. Á suðurlandi er búist við austan hvassviðri, 15 til 20 metrum á sekúndu. Búist er við snörpum vindhviðum við fjöll, til dæmis undir Eyjafjöllum og Mýrdalsjökli. Varasamt er fyrir ökutæki með aftanívagna að vera á ferð meðan veðrið gengur yfir. Viðvörunin tekur gildi klukkan 6 í fyrramálið og lýkur klukkan 18 um kvöldið.
Þá er gul viðvörun í gildi á Austfjörðum milli klukkan 12 og 18 vegna mikillar úrkomu. Búast má við auknu afrennsli í og vatnavöxtum í ám og lækjum, sem eykur hættu á flóðum og skriðuföllum. Þetta getur valdið tjóni og samgönguröskunum. Fólk á svæðinu er hvatt til þess að sýna aðgát og huga að niðurföllum til þess að forðast vatnstjón.
