Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Víða vætusamt um verslunarmannahelgina

Mynd með færslu
 Mynd: Markus Spiske - Pexels
Veðurstofa Íslands spáir vætu í öllum landshlutum um komandi helgi og breytilegum áttum. Hlýjast verður sunnanlands, en hiti verður á bilinu 8 til 15 stig. Veðurstofa ráðleggur fólki að skoða veðurspár vel áður en haldið er í ferðalög um helgina.

Spáð er því að taki að rigna aðfaranótt föstudagsins og þá taki að hvessa. Á föstudagsmorgun gæti vindhraði verið kominn um og yfir 20 m/s með suðurströndinni með hviður allt að 25 m/s undir Eyjafjöllum og 35 m/s í Öræfum.

Einnig má gera ráð fyrir dálitlum norðaustanstreng á heiðum á norðurleið.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu segir að spáð sé norðlægri eða breytilegri átt um helgina. Hún verði þó hæg, með áframhaldandi úrkomu í öllum landshlutum, þó helst hvað minnst á Norðausturlandi. Í hugleiðingunum er fólki ráðlagt að skoða veðurspár vel áður en haldið er af stað í ferðalög um Verslunarmannahelgina.

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir