Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Vaxin upp úr fermingarfötunum fyrir fermingu

29.07.2020 - 19:14
Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Um helmingur drengja hefur skilað fermingarfötunum vegna þess að hann er vaxinn upp úr þeim að sögn eiganda tískufataverslana. Stúlka sem vaxin er upp úr sínum fötum segir leitt að geta ekki notað þau. Ekkert sé að finna í búðum nema blómakjóla.

Þær mæðgur Fríða og Regína eru í óða önn að undirbúa fermingu og veislu og ekki í fyrsta sinn. Undirbúningur var í hámarki í mars. Þá voru keypt fermingarföt því upphaflega stóð til að Regína fermdist í apríl. En þrettán ára börn stækka um nokkra sentimetra á ári en fötin ekki.

Hvenær keyptuð þið þennan samfesting?

„Ég held að það sé svona mánuði áður en ég átti að fermast. Ég held í mars,“ segir Regína Bergmann Guðmundsdóttir.

Þá vissuð þið ekki að þessu yrði frestað?

„Nei. Það var ekki komið í ljós þá. Mjög leiðinlegt að geta ekki notað hann núna,“ segir Regína.

Þannig að þú ert bara búin að stækka svo mikið að hann passar ekki?

„Já. Við höfum reynt að fara í einhverjar búðir en við finnum engin fín föt. Mest eitthvað svona blóma og eitthvað,“ segir Regína.

Manstu ennþá trúarjátninguna og allt þetta?

„Nei, ekki mjög vel,“ segir Regína.

En Regína er langt í frá sú eina sem vaxin er upp úr fermingarfötunum. Um fjögur þúsund og sex hundruð börn eru á fjórtánda ári. Langflest hafa í hyggju að fermast. Margir voru búnir að kaupa fermingarfötin áður en fermingum var frestað.

„Við seljum hann mjög mikið í febrúar og mars. Það var mjög mikið verið að fá að leggja fatnaðinn inn, sérstaklega hjá strákunum. Þannig að við tókum við öllum fötum og fötin bíða hérna í stærri stærðum. Við erum sem sagt að bjóða fermingarfötin aftur hérna inni í versluninni okkar fyrir ágúst og september, þá byrja fermingarnar sem kemur beint ofan í að þá eru skólarnir að byrja. Þetta verður líflegt hérna í ágúst,“ segir Svava Johansen, eigandi NTC og Galleri sautján.

Það er augljóst að margir sitja uppi með of lítil fermingarföt. Töluvert er um að þau séu auglýst til sölu á bland punktur is.

Hefurðu einhverja tilfinningu fyrir þér hversu stórt hlutfall skilaði fötunum sínum?

„Ég hugsa að það sé alveg, strákamegin, fimmtíu prósent, það voru svo margir sem komu,“ segir Svava.

En það þarf ekki bara að hugsa fyrir fermingarfötum. Þessi hálfs árs seinkun hefur haft mikil áhrif.

„Það er náttúruleg fullt af undirbúningi sem maður gerði áður. Maður þurfti að hringja út um allt panta mat og sal, dúka og panta kerti og allt þetta. Þannig að þetta er heilmikil vinna. Maður þurfti að hringja aftur og afpanta allt,“ segir Fríða Birna Þráinsdóttir, móðir Regínu.

Báðar dætur Fríðu fermast með gömlu sálmabókina hennar. Búið var að letra upphaflega ráðgerðan fermingardag Regínu á bókina og það ekki aftur tekið. Hún fær því tvær dagsetningar þökk sé farsóttinni.

Núna er búið að fjölga aftur dálítið smitum í landinu. Óttastu nokkuð að það verði frestað aftur?

„Ég óttast það já. Ég vona innilega að það verði bara allt í lagi,“ segir Fríða.