Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Tilefni til að endurvekja tveggja metra reglu

29.07.2020 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Runólfur Pálsson forstöðumaður lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu Landspítalans, sem COVID-göngudeildin er hluti af, segir tilefni til að endurvekja tveggja metra regluna. En hvað um frekari aðgerðir? „Ég held að það þurfi að skoða það mjög vel. Við flest sem erum að fást við þessa starfsemi hér á Landspítalanum þeirrar skoðunar. Það sem skiptir gríðarlegu máli núna eru einstaklingsbundnar sóttvarnir. Allir gæti sín í hvívetna og fylgi þeim leiðbeiningum sem liggi fyrir,“ segir Runólfur.

Hvaða samfélagsaðgerðir sjáið þið þá fyrir ykkur að ætti að grípa til? „Það verður að meta það. Það snýst um takmarkanir á samkomu hópa. En hversu umfangsmikið það á að vera það er stór ákvörðun og það á að skoða það mjög vel,“ segir Runólfur.

Samráðshópur á vegum landlæknis og Almannavarna auk fulltrúa frá stjórnvöldum fundaði um stöðuna í morgun. Minnisblað með næstu skrefum í samfélagsaðgerðum verður sent ráðherra síðdegis. Landlæknir sagði í gær að eins víst væri að herða þyrfti samkomubann og það jafnvel strax fyrir helgi. Til skoðunar er að breyta áherslum við landamæraskimun, herða fjöldatakmarkanir og innleiða á ný tveggja metra regluna, sem er núna valkvæð. 

18 smit hjá þremur aðskildum hópum

Samkomubann miðast nú við 500 manns og skemmtistöðum er lokað klukkan ellefu. Framlenging opnunartíma sem átti að taka gildi eftir helgi var frestað í gær. 28 eru nú í einangrun. 10 smit greindist á landamærunum. Hin 18 smitin eru innanlandssmit hjá þremur hópum sem tengjast ekki innbyrðis. Innanlandssmitum hefur fjölgað dag frá degi síðustu fjóra daga. Enginn er á sjúkrahúsi. 

Uppruni tveggja smita óþekktur

Fjórir greindust innanlands í gær og mótefnamæling stendur yfir hjá einum til viðbótar til að skera úr um hvort smitið sé nýtt eða gamalt. Af þeim smitum sem greindust í gær tengist eitt hópsýkingu á Akranesi, eitt ferðamanni sem smitaði leiðsögumann og í tveimur tilvikum er ekki vitað um uppruna. Smitrakning og raðgreining stendur yfir.

Forsvarsfólk Landspítala fer nú yfir úrræði til að draga úr smithættu innan sjúkrahússins. „Kannski fyrst og fremst aðgengi að spítalanum. Við þurfum að verja þá. við viljum verja þá sem eru í ákveðni áhættu, þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma sem eru alvarlega veikir. Aðgengi að bráðamóttöku hvernig við stýrum því,“ segir Runólfur.