Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Þrír COVID flutningar hjá slökkviliðinu

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Þrír COVID-19 flutningar voru meðal verkefna Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu síðastliðinn sólarhring, en þann sólarhring var metfjöldi sjúkraflutninga. Alls sinnti slökkviliðið 127 slíkum verkefnum, þar af 53 á næturvaktinni.

„Þetta var stór vakt og stór sólarhringur,“ segir Jóhann Ásgeirsson aðstoðarvarðstjóri hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við fréttastofu RÚV. Mbl.is greindi fyrst frá.

„Það var einn með staðfest kórónuveirusmit sem þurfti flutning á sjúkrahús og síðan lék grunur á krónuveirusmiti í tveimur tilfellum og því fórum við í okkar varnir til að vera viss.“

Jóhann segir nokkra aukningu hafa verið í kórónuveiruflutningum undanfarið. „Þetta var nánast búið. Það var orðið rólegra yfir þessu og höfðu ekki verið flutningar í nokkra daga. Núna eru aðeins að koma fleiri og við erum varkárari af því að það eru smit úti í þjóðfélaginu.“