Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Telja mál Gunters „öfgafullt“ dæmi um óstjórn Pompeo

29.07.2020 - 14:01
Mynd með færslu
Jeffrey Gunther ásamt forseta Íslands Mynd: Bandaríska sendiráðið
Þingmenn Demókrata i utanríkismálanefnd öldungardeildar Bandaríkjaþings segja mál Jeffrey Ross Gunters, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, vera öfgafullt dæmi um óstjórn Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Þetta kemur fram í skýrslu sem þingmennirnir sendu frá sér í morgun. Pompeo kemur fyrir þingnefndina á fimmtudag vegna fjárlaga næsta árs.

CBS fréttastofan í Bandaríkjunum og RÚV hefur fjallað um mál Gunters að undanförnu.

Hann er sagður óttast um líf sitt hér á landi og hafa óskað eftir að fá vopnaðan lífvörð, brynvarðan bíl og vesti sem gæti varið hann fyrir hnífaárásum. Þá er hann sagður hafa neitað að snúa aftur til Íslands eftir frí í Kaliforníu. 

Í skýrslu Demókrata er dregin upp dökk mynd af utanríkisþjónustunni undir forystu Pompeo.  Ekki sé búið að ráða í mikilvægar stöður, starfsfólki með langa reynslu sé sýnd óvirðing og andi pólitískra hefndaraðgerða svífi yfir vötnum, eins og það er orðað í frétt New York Times.

Þá kemur fram að það valdi áhyggjum hversu oft hafi verið skipt um staðgengla sendiherra. Þetta sé mikilvæg staða enda sjái hann um daglegan rekstur sendiráða. Á það er bent að skipt hafi verið um þessa stöðu í sendiráðinu í Kanada, Rúmeníu, Frakklandi, Suður - Afríku og Bretlandi.

Í síðastnefnda landinu var staðgengillinn rekinn eftir að hafa talað fallega um Barack Obama í ræðu sem hann flutti.  Sendiherrann, milljarðamæringurinn Robert Wood Johnson, sem hefur stutt Trump með fjárframlögum, kallaði staðgengilinn svikara fyrir þessu ummæli.

Öfgafyllsta dæmið um þessa óstjórn í utanríkisþjónustunni, segja Demókratar sé í sendiráði Bandaríkjanna á Íslandi. Þar hafi verið sjö staðgenglar sendiherrans þrátt fyrir að aðeins sé tæpt ár frá því að sendiherrann kom til starfa.