Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Staðan tekin þegar niðurstaða greininga liggur fyrir

29.07.2020 - 08:00
Mynd með færslu
Frá upplýsingafundi Almannavarna í gær. Frá vinstri: Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri, Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis og Alma Möller landlæknir. Mynd: Lögreglan
Samráðshópur Almannavarna, fulltrúa heilbrigðisráðherra, sóttvarnalæknis og landlæknis kemur saman til fundar í dag þegar niðurstöður smitrakningar og raðgreiningar sýna, sem tekin voru í kjölfar innanlandssmita, liggja fyrir. Þetta segir Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri Almannavarna.

24 eru nú í einangrun með virkt COVID 19 smit og hafa ekki verið fleiri síðan í byrjun maí.  Hópsýking virðist vera komin upp á Akranesi og Íslensk erfðagreining hefur verið fengin til að skima fyrir kórónuveirunni að nýju. Í gær hafði ekki tekist að rekja tvö af þeim fjórtán innanlandssmitum sem hafa komið upp. 

Jóhann segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort Almannavarnir muni halda upplýsingafund í dag, en slíkur fundur var haldinn í gær eftir að tilkynnt hafði verið í síðustu viku að ekki yrði um fleiri fundi að ræða í bráð. Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, sagði á fundinum í gær að til skoðunar væri að herða aðgerðir vegna samfélagssmita.

Þá var ákveðið að fresta tilslökunum á samkomubanni um tvær vikur en til stóð að leyfa samkomur með þúsund manns og lengja opnunartíma skemmtistaða eftir verslunarmannahelgi.