Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Spyrja sig hvort Icelandair hafi hegnt flugfreyjum

29.07.2020 - 22:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Mikil ólga er meðal flugfreyja vegna ákvörðunar Icelandair um að líta ekki einungis til starfsaldurs við endurráðningar, heldur einnig frammistöðu. Ólgan lýtur meðal annars að loforðum sem forsvarsmenn Icelandair eru sagðir hafa gefið þegar flugfreyjum var sagt upp í hópuppsögn.

 

Fundað en deilan enn í hnút

Flugfreyjufélag Íslands og lögfræðingar á vegum ASÍ, funduðu í dag með fulltrúum Icelandair. Deiluaðilar viðruðu sjónarmið sín en samkvæmt heimildum fréttastofu er málið enn í hnút. Síðdegis boðaði flugfreyjufélagið svo til sérstaks fundar með félagsmönnum sínum í húsakynnum félagsins við Hlíðarsmára í Kópavogi. Flugfreyjurnar sem sóttu fundinn vildu ekki veita fréttastofu viðtal og ljóst að staðan er bæði þung og viðkvæm. Á fundinum var rætt um stöðu þeirra flugfreyja sem virðast ekki fá endurráðningu hjá Icelandair þrátt fyrir langan starfsaldur. 

Margþættur ágreiningur

Icelandair hyggst ráða um 200 flugfreyjur til starfa á ný, en 900 var sagt upp í vor. Varaformaður félagsins, segir dæmi um að flugfreyjur með langan starfsaldur hafi ekki fengið ráðningu á meðan aðrar með styttri starfsaldur hafi verið ráðnar. Þá hefur því verið haldið fram að Icelandair hafi sniðgengið flugfreyjur sem hafi beitt sér í verkalýðsbaráttunni eða verið í veikindaleyfi. 

Samkvæmt heimildum fréttastofu lýtur ágreiningurinn ekki einungis að kjarasamningnum. Meðal annars sé verið að kanna hvort yfirlýsingar sem forsvarsmenn Icelandair gáfu á starfsmannafundi, þegar tilkynnt var um hópuppsögn, hafi skuldbindingargildi. Á fundinum hafi þeir fullyrt að ráðið yrði inn aftur eftir starfsaldri. Þá sé til skoðunar hvort Icelandair hafi hugsanlega brotið gegn lögum um stéttarfélög og vinnudeilur með því að hegna þeim sem beittu sér í kjaradeilunni. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV