Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Skorar á þjóðina að taka upp fyrri sóttvarnir

Mynd: RÚV / RÚV
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands segir blikur á lofti vegna kórónuveirufaraldursins. Hann skorar á þjóðina að taka upp fyrri sóttvarnir, þvo hendur og viðhalda tveggja metra fjarlægð. Hann segir ekki þessi virði að sýna sinnuleysi núna og þurfa svo jafnvel að grípa til enn harðari aðgerða innan skamms. Enginn móttaka verður á Bessastöðum eftir embættistöku forsetans á laugardag.

Guðni segir stöðuna breytta í ljósi fjölgunar innanlandssmita og skorar á þjóðina að fylgja ráðleggingum okkar færustu sérfræðinga.

Erum við að þínu mati orðin of kærulaus?

„Já, eflaust erum við mörg hver orðin of kærulaus. Allt okkar líf er útreiknuð áhætta en við þurfum núna að sýna meiri aðgæslu, meiri varkárni en við höfum flest núna í sumar að minnsta kosti. Við höfum slakað á klónni og við eigum núna að gæta enn betur að því sem gekk svo vel fyrr í ár,“ segir Guðni og nefnir í því samhengi handþvott og tveggja metra regluna.

Embættistaka forseta Íslands fer fram á laugardaginn. Töluvert minni umsvif verða við embættistökuna miðað við fyrri athafnir. Fyrir fjórum árum voru boðsgestir hátt í þrjú hundruð, nú eru þeir um níutíu. Ekki verður heilsað með handabandi þegar árnað verður heilla og ekki liggur fyrir hvernig það verður gert. Sömuleiðis verður ekki blásið til móttöku á Bessastöðum líkt og hefð er fyrir að kvöldi embættistökudags.

„Það er vegna þess að núna eru blikur á lofti. Við höfum notið þess undanfarnar vikur að geta slakað aðeins á okkar veiruvörnum en allt bendir til þess núna að við verðum að gæta okkar enn betur en við höfum verið að gera. Þessi ágæta móttaka má alveg missa sín – hún skiptir engu máli í hinu stóra samhengi,“ segir Guðni.