Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skipta malbiki út fyrir gras til að draga úr hita

epa06414863 People walk through fierce winds at the beach of Hoek van Holland, The Netherlands, 03 January, 2018, during the first storm of the year. The storm is expected to bring wind speeds of up to 115 kph to coastal areas.  EPA-EFE/ROBIN UTRECHT
Holland er að stórum hluta undir sjávarmáli og hafa öll þéttbýlissvæði í landinu verið beðin um að útbúa sérstakt álagspróf til að skoða hvernig þau geti brugðist við auknu úrhelli, hitabylgjum og öfgum í vatnsstöðu. Mynd úr safni. Mynd: EPA
Borgaryfirvöld í hollensku borginni Arnhem vinna nú að endurskipulagi borgarinnar með það í huga að draga úr áhrifum hnattrænnar hlýnunar. Meðal aðgerðanna er áætlun um að skipta 10% af malbiki í borginni út fyrir gras.

Guardian greinir frá og segir að grafa eigi upp nokkra vegi í Arnhem og útbúa skuggasvæði í nágrenni vinsælla verslunarhverfa. Er þetta gert eftir að borgaryfirvöld ályktuðu að afleiðingar hlýnunar jarðar væru óumflýjanlegar.

10 ára áætlun borgaryfirvalda í þessum efnum var kynnt í dag og er nýja skipulaginu ætlað að undirbúa borgarbúa fyrir öfgaveður á borð við miklar hitabylgjur, þurrka og ofsarigningu.

Ein aðgerðanna felur í sér að 10% af öllu malbiki borgarinnar verður látið víkja fyrir grasi og plöntum sem dreifa betur hita og auka ísog borgarinnar á regnvatni.

Markmiðið er að jarðvegur borgarinnar geti tekið á móti 90% alls regnvatns í stað þess að það renni niður í holræsin.

Lítil umferð er um vegina sem verða látnir víkja. Þá kanna borgaryfirvöld nú hvort hægt sé að endurnýta malbikið eða selja.

Einnig stendur að gróðursetja tré meðfram vegakerfi borgarinnar til að veita skjól fyrir sólu og sérstök „kælisvæði“ verða sett upp í nágrenni vinsælla torga og verslunarmiðstöðva. Segir Guardian að á kælisvæðunum verði að finna bæði tjarnir og skyggð svæði.

Holland er að stórum hluta undir sjávarmáli og hafa öll þéttbýlissvæði í landinu verið beðin um að útbúa sérstakt álagspróf til að skoða hvernig þau geti brugðist við auknu úrhelli, hitabylgjum og öfgum í vatnsstöðu.

Cathelijne Bouwkamp, sem er í borgarráði, Arnhem, segir borgina vera leiðandi. Einnig standi þó til að veita þeim íbúum styrki sem vilji framkvæma hugmyndir á borð við regnvatnssöfnun og uppsetningu þakgarða.

Bouwkamp segir þessar hugmyndir vera hluta af áætlunum borgaryfirvalda til að draga úr losun. „Orkubreytingarnar eiga að tryggja að það sé búandi í borginni í framtíðinni,“ segir hún. „Við verðum þó líka að bregðast við þeim loftslagsbreytingum sem eiga sér stað núna. Flóð, hitabylgjur og þurrkar eru að færast í aukana.“

Hollensk stjórnvöld hafa heitið því að draga úr losun um 49% fyrir árið 2030, þegar miðað er við losun árið 1990. Þá að að tryggja að fyrir árið 2050 verði búið að draga úr losun um 95%.