
Réðst inn á lögmannsstofu og tók lögmann kverkataki
Í greinargerð sem lögð var fram í Héraðsdómi Reykjavíkur kemur fram að lögmaðurinn hafi hringt í neyðarlínuna og óskað eftir aðstoð lögreglu eftir að honum bárust hótanir frá manninum á sms-i. Þar hótaði maðurinn að drepa lögmanninn og fjölskyldu hans.
Haft var samband við annan lögmann sem upplýsti að honum hefði einnig borist líflátshótanir. Þegar lögregla tók skýrslu af manninum játaði hann að hafa sent umrædd skilaboð.
Maðurinn er einnig sagður hafa ruðst inn á lögmannsstofu í byrjun júní, tekið lögmann kverkataki og hótað starfsfólki stofunnar lífláti. Fjöldi vitna var að atvikinu en maðurinn hefur ekki verið yfirheyrður vegna málsins og er það til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara.
Hann er einnig grunaður um að hafa slegið konu með hátalara og alvarlegar hótanir gagnvart barnsmóður sinni. Í því máli liggja fyrir upptökur af grófum hótunum.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sagðist telja að gæsluvarðhald væri nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum mannsins. Hann hefði sýnt af sér ofbeldisfulla hegðun og ráðist á fólk að því er virtist að tilefnislausu.