Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Rannsókn Wikborg Rein lokið - funda með saksóknara

29.07.2020 - 17:06
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Rannsókn norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein á starfsemi Samherja í Namibíu er lokið. Niðurstöður skýrslu lögmannsstofunnar hafa verið kynntar fyrir stjórn félagsins. Forsvarsmenn lögmannsstofunnar munu eiga fund með embætti héraðssaksóknara í haust.

Þetta kemur fram á vef Samherja.

Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, staðfestir í samtali við fréttastofu að embættið muni funda með lögmannsstofunni í haust og að búið sé að ákveða dagsetningu. Hann vildi ekki tjá sig frekar um málið.  Þá hafa einnig farið fram fundir milli lögmannsstofunnar og fulltrúa namibískra stjórnvalda til að kanna grundvöll fyrir samstarfi. 

Á vef Samherja er haft eftir Eiríki Jóhannessyni, stjórnarformanni Samherja, að fyrirtækið hafni því að stjórnendur fyrirtækisins hafi nokkru sinni hlutast til um að nokkurt dótturfyrirtækja þess hafi stundað vafasama viðskiptahætti „þar á meðal mútugreiðslur eða peningaþvætti, í því skyni að ná fram fjárhagslegum ávinningi og mun andmæla kröftuglega frekari ásökunum í þá veru,“ hefur vefur Samherja eftir Eiríki.

Þær ásakanir sem hafi verið bornar á fyrirtækið dragi upp „afbakaða mynd af starfsemi Samherja.“ Engu að síður hafi verið mikilvægt fyrir fyrirtækið að sýna öllum viðskiptavinum, samstarfsaðilum „að við tökum slíkum ásökunum mjög alvarlega.“ 

Enn eigi eftir að taka afstöðu til þess hvaða niðurstöður verði hægt að birta opinberlega og hvernig. „ Í því sambandi þarf að meta hvort birting kunni að hafa áhrif á rannsóknir í öðrum ríkjum. Þá þarf að meta hvort birting á upplýsingum gangi í berhögg við lög og reglur vegna þeirra einstaklinga sem kunna að koma við sögu. 

Rannsókn vegna Samherjaskjalanna er í gangi í þremur löndum.  Norska efnahagsbrotadeildin hefur hafið formlega rannsókn á DNB-bankanum. Þá eru sex í gæsluvarðhaldi í Namibíu en þeim er gefið að sök að hafa þegið hátt í milljarð í greiðslur frá útgerðafélögum í eigu Íslendinga.

Embætti héraðssaksóknara hér á landi hefur sömuleiðis haft málið til rannsóknar. Í nóvember óskaði embættið eftir sex starfsmönnum en tilefnið var umræða um mál útgerðarfyrirtækisins og áhrif þess á verkefnisstöðu embættisins.

  

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV