
„Maður rennir svolítið blint í sjóinn“
Oddur var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun. Hann segir að nokkrar áhyggjur séu af óskipulögðum útihátíðum.
„Fyrir tíma erlendra ferðamanna þá gerðist þetta reglulega hjá okkur þannig að við þekkjum þetta svolítið. Á þeim tíma vorum við með viðbúnað sem flutti sig um Suður- og Vesturlandð eftir því hvar þessir atburðir urðu. Við ætlum okkur að fylgjast með þessu núna, að það sé ekki að verða einhver stór partý einhversstaðar á túni þar sem engin hefur umsjón með og engin aðstað er til hreinlætis eða neins annars. En maður rennir svolítið blint í sjóinn með það hvað gerist þessa helgi,“ sagði Oddur í Morgunútvarpinu.
Breytt skemmtanamynstur
Oddur segir að veðurspáin gæti spilað þarna inn í, en spáð er rigningu á Suðurlandi og víðar um land um helgina. „Svo er líka annað sem hefur gerst , það er breytt skemmtanamynstur og maður sér það bara og heyrir að það eru margir sem eru búnir að vera í útilegum allan júlímánuð og nú á bara að tylla sér niður í rólegheitum heima. En við verðum með mikinn viðbúnað á Suðurlandinu til að takast á við þetta og erum með viðbúnað inni á hálendinu líka. “
Oddur segir að þrátt fyrir að Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum hafi verið aflýst verði aukinn viðbúnaður í Landeyjahöfn. „Það verður nú einhver traffík út í Vestmanaeyjar og við munum eftir sem áður fylgjast með þar.“
Oddur segir að það sé á ábyrgð hvers og eins að huga að eigin sóttvörnum.
„Ef að fólk er komið í aðstæður sem því líður ekki vel í og finnst ekki nóg að gert þá verður bara hver að sjá um sig.“