Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Jákvæður viðsnúningur í afkomu Arion banka

29.07.2020 - 17:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jákvæður viðsnúningur er í afkomu Arion banka á öðrum ársfjórðungi 2020. Afkoma af áframhaldandi starfsemi var 4.958 milljónir króna. Þetta er 76 prósenta aukning frá öðrum ársfjórðungi ársins 2019.

Undir lok þriðja ársfjórðungs í fyrra var ráðist í skipulags- og áherslubreytingar sem gerðu það að verkum að afkoma bankans batnaði verulega seint á síðasta ári. Arion banki hagnaðist um 5,2 milljarða króna af áframhaldandi starfsemi á fjórða ársfjórðungi 2019 en tapaði hins vegar 2,1 milljarði króna á fyrsta ársfjórðungi 2020.

Arðsemi eiginfjár bankans á öðrum ársfjórðungi 2020 var 10,5 prósent í samanburði við 4,3 prósent á sama ársfjórðungi 2019. Hreinn vaxtamunur var 2,9 prósent og hækkar á milli ára. Þá hækka tekjur af kjarnastarfsemi um 1,8 prósent milli ára. Rekstrargjöld lækka um 3,5 prósent, sem aðallega má rekja til skipulagsbreytinganna í fyra. Þá segir í tilkynningu frá bankanum að resktur Valitors, dótturfélags Arion banka, fari batnandi. Bankinn réðst í kostnaðarsamar aðgerðir í byrjun árs til þess að rétta við taprekstur Valitors en hann hefur um nokkra hríð stefnt að því að selja félagið.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir í fréttatilkynningu að markmiðum hafi verið náð en kapp sé lagt á að bæta enn frekar reglulega starfsemi bankans.

„Afkoma Arion banka á öðrum ársfjórðungi er góð og við náum markmiði okkar um 10% arðsemi. Það er sérstaklega ánægjulegt í ljósi þess að eiginfjárstaða bankans er afar sterk og langt umfram kröfur eftirlitsaðila. Regluleg starfsemi bankans þróast með jákvæðum hætti á fjórðungnum en óvenjulega háar fjármunatekjur, bæði af hluta- og skuldabréfum, hafa mjög jákvæð áhrif á afkomuna.

Það er því áfram forgangsatriði að bæta enn frekar okkar reglulegu starfsemi. Starfsemi dótturfélaganna Varðar og Stefnis gengur vel og dregið hefur úr taprekstri Valitor en í upphafi árs var ráðist í endurskipulagningu á félaginu sem er til sölu. Markmiðið er að styrkja kjarnastarfsemi Valitor og var m.a. starfsemi félagsins í Danmörku seld á fjórðungnum. Þó enn sé nokkuð í land að markmiðum endurskipulagningar félagsins verði náð er ljóst að umtalsverður árangur hefur nú þegar náðst,“ segir Benedikt.