Hvað er um að vera um verslunarmannahelgina?

29.07.2020 - 15:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mörgum stórum, rótgrónum hátíðum um verslunarmannahelgina hefur verið aflýst eða frestað eins og Unglingalandsmóti UMFÍ, Mýrarboltanum á Ísafirði, Síldaævintýrinu á Siglufirði og Neistaflugi í Neskaupstað. Enn er áformað að halda bæjarhátíðina Ein með öllu á Akureyri en þó með breyttu sniði.

Verslunarmannahelgin er handan við hornið. Hátíðahöld verða þó með heldur óvenjulegu sniði vegna farsóttarinnar og fjöldatakmarkana enda mega bara 500 manns koma saman á hverjum stað.

Veðrið virðist þó ekki ætla að leika við landsmenn. Veðurstofan hefur spáð vætu í öllum landshlutum. Fréttastofa tók saman helstu viðburði í hverjum landshluta.

Vestfirðir og Vesturland

Mýrarbolta aflýst en Sæludagar á sínum stað

Á vestanverðu landinu er stærsta hátíðin alla jafna Mýrarbolti á Ísafirði sem var aflýst í ár.

  • Heimildarmyndahátíðin Skjaldborg á Patreksfirði verður um helgina. Hún fer vanalega um hvítasunnuhelgina en var frestað í ár vegna kórónuveirunnar. Þar eru nýjar íslenskar heimildarmyndir frumsýndar og er hátíðinni ætlað að vera tækifæri fyrir kvikmyndagerðarfólk og áhugamenn um heimildarmyndir til að koma sama.
  • Listasafn Samúels stendur fyrir listahátíð í Selárdal um verslunarmannahelgina. Í boði verður leiðsögn í gönguferð í Selárdal, listasmiðja fyrir fjölskylduna, matur úr héraðinu, kaffi og meðlæti og brennusöngur.
  • Í Vatnaskógi standa KFUM og KFUK fyrir vímulausu fjölskylduhátíðinni Sæludögum í Vatnaskógi. Þar er þétt dagskrá alla helgina, meðal annars skemmtiskokk, kassabílarallý og fjölskyldubingó. Sigga og Grétar halda tónleika á laugardagskvöldinu og það verður varðeldur og brekkusöngur.

Norðurland

Ein með öllu með gjörbreyttu sniði

Síldarævintýrið á Siglufirði verður ekki í ár. Íbúar hafa þó verið hvattir til að skreyta hverfin sín og halda götugrill og FM Belfast verður með tónleika á Kaffi Rauðku á föstudagskvöldið. 

  • Ein með öllu á Akureyri verður haldin, þó með gjörbreyttu sniði. Ekkert verður af stórum tónleikum heldur verða litlir fjölskylduvænir viðburðir í boði víðs vegar um bæinn. Markmiðið er að fjölskyldan geti gert sér dagamun og hafa aldurstakmörk á tjaldsvæðum verið hækkuð í 20 ár. Kirkjutröppuhlaupið og Mömmur og möffins verða á sínum stað en vegna varúðarráðstafana verða einungis seldar möffins frá fyrirtækjum og viðurkenndum eldhúsum.
  • Berjadagar á Ólafsfirði, sem er fjögurra daga klassísk tónlistarhátíð verður haldin í tuttugasta og annað sinn. Nokkrir af fremstu tónlistarmönnum landsins koma fram í Ólafsfjarðarkirkju og Menningarhúsinu Tjarnarborg. Náttúra og listsköpun eru einkunnarorð hátíðarinnar en ásamt tónleikum verða myndlistarsýningar, náttúruskoðun, heimspekikvöld og grill fyrir bæjarbúa úti undir berum himni.

Austurland

Hagyrðingakvöld og kótilettur

Neistaflugi í Neskaupstað var aflýst. Austfirðingar þurfa þó ekki að örvænta því Kótilettukvöld og hagyrðingamótið á Borgafirði eystra verður á sínum stað, að þessu sinni undir stjórn Gísla Einarssonar. Þá verða Stebbi Jak og Andri Ívars með skemmtun á laugardagskvöld og Killer Queen með tónleika á sunnudagskvöld. Komdu Austur! verður á Egilsstöðum um helgina þar sem meðal annars Dúndurfréttir, Emmsjé Gauti og Ljótu hálfvitarnir spila í Valaskjálf.

Suðurland

Engin Þjóðhátíð en fjölskylduhátíð á Selfossi

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum hefur löngum verið stærsta og vinsælasta útihátíðin. Hún hefur verið blásin af en það er hins vegar búist við talsverðum fjölda í Eyjum. Á Hótel Selfossi verður fjölskylduhátíð og útitónleikar og kvöldvökur verða föstudags-, laugardags- og sunnudagskvöld. Þá leiðir Pétur Örn brekkusöng á sunnudagskvöld. 

Höfuðborgarsvæðið

Það verður líf og fjör í Reykjavík um helgina og fjöldi viðburða vítt og breitt um borgina, meðal annars á veitingastaðnum Sjálandi, Spot og Granda Mathöll. Tónlistarröð Secret Solstice og Icelandic Glacial heldur áfram um helgina í Dillon-garðinum. Þá verður þjóðhátíðarpartí í Stúdentakjallaranum og fjölbreytt leikjadagskrá á Árbæjarsafni. Tónlistarhátíðin Innipúkinn verður á sínum stað. Aðaltónleikadagskráin fer að þessu sinni fram í Gamla bíói og á efri hæð Röntgen.

Viðbúið er að samkomubann verði hert í ljósi fjölgunar á innanlandssmitum. Sóttvarnalæknir sendir ráðherra nýjar tillögur í dag og má gera ráð fyrir að dagskrá hátíða helgarinnar geti breyst vegna þessa. 

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi