Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Húsflugur herja á Akureyringa

29.07.2020 - 00:13
Innlent · Akureyri · Flugur · Meindýr · Norðurland · Skordýr
Húsflugur hafa gert mörgum Akureyringum lífið leitt síðustu vikur. Flugnasprey, límgildrur og rafmagnsflugnaspaðar seljast nú sem aldrei fyrr. Meindýraeyðir segir að þetta sé hálfgerð plága.

Algengara að fólk láti eitra

Húsflugan er algeng um land allt en þó öllu algengari til sveita en í þéttbýli. Hún hefur þó valdið mörgum Akureyringum töluverðum óþægindum síðustu vikur en hún rennur inn um opna glugga og á það til að gerast ágeng við fólk og matardiska. 

Árni Sveinbjörnsson, meindýraeyðir segir það færast töluvert í aukana að fólk láti eitra fyrir húsflugu í kringum hús á Akureyri. Það séu þó fjölmargar aðrar frumlegar leiðir í boði til þess að berjast gegn flugum. 

„Þetta er um allt“

„Sko þar sem ég er að koma, sko stundum er magnið alveg, ég veit ekki tölulega séð en þetta er aleveg geipilegt magn, þetta er alveg geipilegt. Þetta er um allt,“ segir Árni.

Árni segir fluguna vera skæðari en síðustu ár. Hann segir erfitt að átta sig á því hvað veldur því.

„Ég hef ekki hugmynd um það frekar en aðrir en ég giska á að það sé þessi hiti sem er búinn að vera rakt loft ég er svona að giska á að það sé eitthvað í því.“