Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Heyrt sögur af fólki sem hleypur aukahring á planinu

29.07.2020 - 20:41
Innlent · Heilsa · Hlaup · Hreyfing · Útivist
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Birna Varðardóttir, hlaupari og doktorsnemi í íþrótta- og heilsufræði, segir að þjónustustöðvun Garmin í síðustu viku afhjúpi að vissu leyti hve margir eru háðir heilsuúrum og endurgjöf frá tengdum forritum. Hún segir að margt sé jákvætt við notkun Garmin og annarra tækja sem gerir fólki kleift að halda utan um æfingar sínar. Hins vegar sé varasamt að láta stjórnast um of af tækninni.

Tæknifyrirtækið Garmin varð fyrir tölvuárás síðastliðinn miðvikudag. Í kjölfarið lá þjónusta fyrirtækisins niðri í fáeina daga, mörgum íþróttaiðkendum til mikils ama. Garmin gagnast þeim sem vilja skrásetja hreyfingu og ferðalög, til dæmis hlaup, sundferðir, hjólreiðaferðir og fleira. Smáforritið Strava, sem margir íþróttaiðkendur notast við, styðst við hugbúnað Garmin og einnig varð rof á þjónustu þess í kjölfar tölvuárásarinnar. 

Birna segir að hún hafi heyrt af mörgum hlaupurum sem þótti þjónustustöðvunin mjög bagaleg. Æfingarnar þeirra fóru ekki inn á Strava, því ekki var mögulegt að tengjast Garmin Connect appinu í kjölfar tölvuárásarinnar. Birna segir að fólk hafi verið orðið svolítið áhyggjufullt strax daginn eftir árásina og margir hófust þegar handa við að finna lausnir til þess að skrá æfingarnar sínar. 

Telst æfingin með ef hún fer ekki á Strava?

Á Twitter mátti greina nokkurt ergelsi yfir þjónustustöðvuninni. Sumir sögðu, þó sennilega í gríni, að fyrst þjónusta Garmin lægi niðri væri lítill tilgangur í því að fara út að hlaupa. Birna segist kannast vel við þetta viðhorf. „Oft er sagt bæði í gríni og alvöru að ef æfingin fer ekki á Strava teljist hún vart með eða hafi ekki átt sér stað. Uppákoman hjá Garmin afhjúpar kannski svolítið hversu háðir margir eru þessum úrum og endurgjöfinni frá tengdum forritum sömuleiðis,“ segir hún. 

Birna telur þó engan vafa leika á því að margt sé jákvætt við notkun Garmin og Strava. „Þarna er hægt að fylgjast með árangrinum og sækja ákveðna hvatningu,“ segir hún. „Við viljum hafa markmiðin mælanleg og til að ná markmiðum í hreyfingu og íþróttum þurfum við að hafa áætlun sem leiðir okkur að markmiðinu og þessi tæki veita því fínasta utanumhald.“

Hlaupa aukahring á bílaplaninu til þess að ná upp í næsta kílómetra

Aðspurð hvort hvatinn sem notendur Garmin og Strava upplifa sé að hluta til sprottinn af þörf á að „monta sig“ af afrekum sínum segir Birna að svo sé vissulega í sumum tilfellum. „Ef það veldur taugatitringi að æfingin detti ekki tafarlaust inn á app, og þú getir þannig ekki sýnt og staðfest hana við þig og aðra að hún hafi verið kláruð, þá má kannski velta fyrir sér hvort það sé of mikið af hinu góða. Þetta er á ákveðinn hátt nátengt umræðunni um ímynd okkar á samfélagsmiðlum. Fólk vill sýna að það sé virkt í því sem það er að gera og í þeim skilningi líta vel út,“ segir hún. 

Birna segist hafa heyrt sögur af fólki sem gengur svo langt að hlaupa aukahring í kringum húsið eða á bílaplaninu heima hjá sér í lok æfingar til þess að ná upp í næsta heila kílómetra. 

Mynd með færslu
Birna Varðardóttir, hlaupari og doktorsnemi.

Birna telur að þjónustustöðvun Garmin sé ágætis tímapunktur fyrir marga til þess að íhuga áhrif tækninnar á okkur sjálf. Hún segir að þótt ný tækni sé gagnleg, þá sé engum hollt að gefa sig henni algjörlega á vald. „Það er gott að muna að þó tæknin sé snjöll og spennandi þá er mikilvægt að hún stjórni manni ekki um of og maður geti ennþá hlustað á eigin líkama og líðan,“ segir hún.

Birna telur að það geti hiklaust haft áhrif á upplifun fólks af hreyfingu og útivist að einblína um of á töluleg gögn. „Það er gott að muna að það eru aðrir hvatar og passa upp á að maður sé virkilega að njóta þess sem maður er að gera,“ segir hún.