Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Gagnrýnir áform um að flytja Ólaf Helga til Eyja

Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Ragnarsdóttir - RÚV
Hildur Sólveig Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum, gagnrýnir meint áform Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um að færa Ólaf Helga Kjartansson, lögreglustjóra á Suðurnesjum, til Vestmannaeyja.

Gustað hefur um embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum að undanförnu og hefur starfsfólk embættisins lýst langvarandi óstjórn og flokkadráttum. Fréttastofa greindi frá því í síðustu viku að ráðherra hefði óskað eftir því við Ólaf að hann segði starfi sínu lausu, en hann varð ekki við því.

Sjá einnig: Sögð vilja senda Ólaf Helga til Vestmannaeyja

Fréttablaðið greindi svo frá því í gær að dómsmálaráðherra hefði boðið Ólafi Helga að flytjast til Vestmannaeyja. Segir Hildur Sólveig í færslu á Facebook að það liggi í hlutarins eðli að sé lögreglustjóri óhæfur til að sinna embætti sínu á Suðurnesjum sé hann jafn óhæfur til að sinna því í Vestmannaeyjum. Annað væri gjaldfelling á embættinu og neikvæð skilaboð til samfélagsins í Eyjum. Telur Hildur Sólveig að réttast væri að auglýsa stöðuna en Páley Borg­þórs­dóttir lét af em­bætti lög­reglu­stjóra í Vest­manna­eyjum í byrjun júlí þegar hún var skipuð lög­reglu­stjóri á Norður­landi eystra.