Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Framsókn bætir við sig fylgi í nýrri könnun MMR

29.07.2020 - 11:57
Innlent · Alþingi · mmr · Stjórnmál
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Framsóknarflokkurinn mælist með meira fylgi en Miðflokkurinn og er með 8,6 prósenta stuðning, í könnun MMR sem birt var í dag. Miðflokkurinn mælist með 8,4 prósent stuðning. Framsóknarmenn bæta við sig 2,5 prósentustigum frá síðustu könnun sem birt var um miðjan júní.

Sjálfstæðisflokkurinn er enn vinsælasta framboð til Alþingis í könnunum og nýtur samkvæmt MMR stuðnings fjórðungs kjósenda, 24 prósenta stuðnings. Samfylkingin hefur verið næst vinsælust síðustu mánuði en er nú með 13,1 prósent fylgi og tapar marktækt fylgi sínu síðan síðast.

 

Píratar njóta 15,4 prósenta stuðnings í könnuninni og bæta 2,2 prósentustigum við sig síðan síðast. Vinstri græn eru með nánast jafn mikið fylgi og síðast, 10,8 prósent.

Fylgi við Viðreisn dalar síðan síðast og mælist nú 8,4 prósenta stuðning. Sósíalistaflokkur Íslands bætir marktækt við sig fylgi og mælist nú með 5,1 prósenta stuðning. Flokkur fólksins mundi ekki ná manni á þing ef gengið yrði til kosninga nú og miðað við að framboð þurfi fimm prósenta fylgi á landsvísu til að ná kjöri. Flokkur Ingu Sæland mælist með 4,0 prósenta fylgi.

2,1 prósent svarenda segjast styðja önnur framboð til Alþingis.

Tæplega 48 prósent svarenda sögðust styðja ríkisstjórnina. Það er um einu prósentustigi meira en síðast.

Könnun MMR var gerð dagana 23. til 28. júlí. 951 svaraði spurningunni. Úrtakið var valið handaófskennt úr hópi álitsgjafa MMR, 18 ára og eldri.