Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Fjögur innlend smit til viðbótar - 28 virk smit

29.07.2020 - 10:47
Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot - RÚV
Fjögur COVID-19 smit greindust innanlands í gær og því til viðbótar er beðið eftir mótefnamælingu úr fimmta sýninu. Einn þeirra sem greindist var í sóttkví. Nú eru 28 virk smit á landinu, 201 er í sóttkví og hefur þeim fjölgað um 28 síðan í gær.

Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri Almannavarna, segir í samtali við Fréttastofu að búið sé að raðgreina átta af þeim níu smitum sem greinst hafa undanfarið. „Í þeim  greindist sama mynstur kórónuveirunar,“ segir Jóhann.

Fundi samráðhóps landlæknis,  fulltrúa stjórnvalda, sóttvarnalæknis og Almannvarna lauk á 11 tímanum í morgun þar sem farið var yfir þá stöðu sem nú er komin upp. Spurður um næstu skref segir Jóhann að sóttvarnalæknir sendi nú minnisblað til heilbrigðisráðherra um til hvaða aðgerða þurfi að grípa.

Spurður hvort komið hafi til greina að herða aðgerðir segir Jóhann það ekki liggja fyrir. Hann segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort Almannavarnir muni standa fyrir upplýsingafundi í dag.

Almannavarnir vilja minna á mikilvægi sóttvarna, en leiðbeiningar um þær eru meðal annars á covid.is og í smitrakningarappi Almannavarna. Minnt er á mikilvægi handþvottar og þess að halda fjarlægð á milli fólks.